Hoppa yfir valmynd

Nr. 081, 23 október 2000 Ræður fastafulltrúa á 55. allsherjarþingi S.þ.

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu



Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Þorsteinn Ingólfsson sendiherra, hélt tvær ræður á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í sl. viku. Annars vegar um umhverfismál og hins vegar um kynþáttamisrétti.
Í ræðunni um umhverfismál ræddi fastafulltrúi um undirbúning ráðstefnu sem halda á árið 2002 í tilefni 10 ára afmælis Ríó-ráðstefnunnar um umhverfi og þróun. Hann lagði áherslu á að menn einblíndu ekki aðeins á það sem miður hefði farið við framkvæmd Ríó-samþykktanna, heldur litu til framtíðar og finndu leiðir til lausna á umhverfisvandanum. Mörg dæmi mætti nefna um góðan árangur. Hann lagði til að á ráðstefnunni yrði lögð áhersla á tengsl fátæktar og umhverfismála, vernd lífríkisins og leiðir til að auka hagvöxt og lífsgæði án þess að auka álag á umhverfi og auðlindir.
Í ræðunni um kynþáttamisrétti lýsti fastafulltrúinn yfir fullum stuðningi íslenskra stjórnvalda við störf sérstaks fulltrúa mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna gegn kynþáttamisrétti og útlendingahatri. Hann kvað Ísland styðja allt starf fulltrúans sem miðar að auknu umburðarlyndi. Hann fagnaði ákvörðun allsherjarþingsins um að halda alþjóðaráðstefnu gegn kynþáttahatri og kynþáttamisrétti í S-Afríku haustið 2001. Hann vakti athygli á pólitískri yfirlýsingu nýlegs fundar Evrópuráðsins gegn kynþáttamisrétti og lagði áherslu á áframhaldandi lykilhlutverk þess. Fastafulltrúinn kvað íslensk stjórnvöld fordæma hverskyns notkun veraldarvefsins til að útbreiða kynþáttahatur eða stuðla að ofbeldi. Hann taldi áhrifamátt fjölmiðla mikinn og baráttan gegn kynþáttahatri og kynþáttamisrétti yrði ekki unnin án aðstoðar frjálsra félagasamtaka og einstaklinga.

Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 23. október 2000





Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics