Hoppa yfir valmynd

Nr. 081, 24. september 1999. Ræða utanríkisráðherra á 54. allsherjarþingi S.Þ.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 081




Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra flytur að kvöldi föstudags hinn 24. september, ávarp af hálfu Íslands í almennri umræðu 54. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt hefur hann átt tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Grænhöfðaeyja, Ítalíu, Króatíu, Póllands, Slóvakíu, Tyrklands, Úkraínu og Grikklands. Síðastliðinn miðvikudag stýrði utanríkisráðherra sérstökum samráðsfundi norrænu utanríkisráðherranna.

Í upphafi ræðu sinnar leggur ráðherra áherslu á mikilvægi Sameinuðu þjóðanna fyrir hið alþjóðlega samfélag og segir að á þessum tímamótum sé ástæða til að líta yfir farinn veg og reyna að ráða í framtíðina.

Hann bendir á að endurbætur á Sameinuðu þjóðunum hafi falið í sér endurmat á innra skipulagi, starfsmannamálum og úrbætur á fjármálastjórn stofnunarinnar. Frekari aðgerða sé þörf. Aðildarríkin þurfi að hafa kjark til að líta ekki aðeins stofnunina sjálfa gagnrýnum augum heldur einnig samskipti aðildarríkjanna sjálfra. Meðan á þessum breytingum stendur verður að gæta þess að þær hafi ekki neikvæð áhrif á ímynd stofnunarinnar út á við. Jafnframt þurfi að koma í veg fyrir að þetta ferli veiki vinnuanda alþjóðastarfsliðs stofnunarinnar sem oft á tíðum vinnur við erfið og hættuleg skilyrði.

Ráðherrann minnist sérstaklega á nauðsyn þess að styrkja stofnunina og gera hana þar með betur í stakk búna til að takast á við flóknar breytingar. Í þessu sambandi nefnir ráðherra störf vinnuhóps um endurbætur á öryggisráðinu og gagnrýnir þann seinagang sem þar hefur átt sér stað. Verði ekki sýnilegur árangur í framtíðinni muni það óhjákvæmilega veikja stofnunina. Hann gerir að umtalsefni nýlega samantekt aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um nauðsyn fyrirbyggjandi aðgerða á vegum S.þ.

Í ljósi nýafstaðins fundar utanríkisráðherra Norðurlandanna á Egilstöðum vekur utanríkisráðherra athygli á yfirlýsingu ráðherranna um börn í hernaði og vilja Norðurlandanna á aukinni vernd þeirra með gerð viðbótarbókunar við alþjóðasamninginn um réttindi barna. Ráðherrann fagnar starfi sérstaks fulltrúa aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna fyrir börn og hernað.

Í tilefni af tíu ára afmæli alþjóðasamningsins um réttindi barna minnir utanríkisráðherra á ábyrgð aðildarríkjanna að setja hagsmuni barna ávallt í forgrunn og að þátttaka barna í hernaði samræmist ekki þessu markmiði. Ráðherra vekur athygli á að tryggja verði að börn geti notið þeirra réttinda sem samningurinn kveður á um, ekki síst á því tímabili sem átökum er að ljúka en áður en endanlegur friður hafi komist á.

Utanríkisráðherra gerir hryðjuverk og heigulshátt þeirra sem beina árásum að saklausum borgurum að umræðuefni. Hann bendir einnig á nauðsyn alþjóðasamvinnu gegn skipulagðri glæpastarfsemi og eiturlyfjasölu en ekkert ríki er laust við þessa skæðu óvini nútímans.

Ráðherra minnir á að árið 1999 er tileinkað öldruðum og upplýsir um aðgerðir íslenskra stjórnvalda af því tilefni.

Ráðherra gerir að umtalsefni vaxandi bil milli ríkra og fátækra innan ríkja jafnt sem milli iðnríkja og þróunarríkja. Í þessu tilliti vekur ráðherra sérstaklega máls á þeirri uggvænlegu þróun að fátækt leggst í auknum mæli á konur. Ekki er augljóst hvernig taka beri á þessum vanda þegar til skemmri tíma er litið en tvö úrræði eru fyrir hendi til að styrkja stöðu kvenna. Annars vegar menntun og hins vegar virðing fyrir mannréttindum.

Menntun kvenna nýtist næstu kynslóð með beinum hætti þar sem konur koma þekkingu sinni áfram til barna sinna. Það er almennt viðurkennt að menntun og félagsleg þróun haldast í hendur og eru skilyrði fyrir veröld þar sem friður og velmegun ríkir. Í tæknivæddum nútíma hefur vægi menntunar margfaldast. Vegna þessa er nauðsynlegt að gera menntun að hluta þróunarverkefna. Þetta hafi íslensk stjórnvöld gert um árabil með markvissu þjálfunarstarfi í sjávarútvegi þróunarríkja sem og með lestrarkennslu kvenna í Namibíu. Svipuð verkefni eru í burðarliðnum fyrir Malaví og Mósambík.

Þessu næst víkur ráðherra að nauðsyn þess að stemma stigu við því misrétti sem konur eru beittar um víða veröld. Taka þurfi á þessum vanda, bæði innan ríkja sem á alþjóðavettvangi þar sem starfsemi alþjóðastofnana hafi sífellt meiri áhrif á líf fólks. Sérstaklega þar sem hættuástand ríki þurfi að tryggja að tekið sé fullt tillit til hagsmuna kvenna þegar komið er að samingaborði.

Ráðherra vekur athygli á fundi Efnahags- og félagsmálaráðs S.þ. fyrr á árinu. Þar beindu íslensk stjórnvöld kastljósinu að vanda þeirra sem búa við fátækt við strendur ríkja heims en þar geti reynsla Íslendinga á sviði sjávarútvegs komið að gagni. Það liggi í augum uppi að þróaður sjávarútvegur geti stuðlað að auknu matvælaöryggi í þróunarríkjum. Íslensk fyrirtæki hafi verið hvött til að fjárfesta í sjávarútvegi í þróunarríkjum svo sem Namibíu, Mósambík og Malaví. Fyrirtækjatengsl af þessu tagi geti leitt til aukinnar tæknifærslu til þróunarríkja sem hafi hvetjandi áhrif á hagvöxt og þróun strandbyggða. Íslendingar telji að mörg þróunarríki gætu hagnast miklu meira á skynsamlegri nýtingu auðlinda hafsins. Um helmingur þróunaraðstoðar Íslendinga hafi verið beint til rannsókna og þjálfunar í sjávarútvegi með sérstakri áherslu á sjálbæra nýtingu sjávarauðlinda.

Ísland hefur lengi lagt sérstaka áherslu á störf nefndar um sjálfbæra þróun á vegum Sameinuðu þjóðanna. Íslensk stjórnvöld hvöttu þar til afnáms ríkisstyrkja í sjávarútvegi sem leiða til aukinnar veiðgetu fiskiflota í heiminum. Íslenska sendinefndin tók einnig þátt í umræðunni um nauðsyn þess að efla umfjöllun um málefni hafsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Í þeim málaflokki þurfi að vanda sérstaklega til verka.

Nýting lifandi auðlinda hafsins er margslungið og viðkvæmt viðfangsefni sem byggja verður á nýjustu vísindalegum upplýsingum hverju sinni og vera í samræmi við staðbundna félags-, efnahags- og umhverfislega þætti.

Utanríkisráðherra fordæmir átök þar sem óbreyttir borgarar eru hafðir að skotmarki. Enn á ný hafi heimsbyggðin orðið vitni að illmennsku af þessum toga í þjóðernishreinsunum í Kosóvó. Það hefði verið æskilegt að Sameinuðu þjóðirnar hefðu tekið virkari þátt í úrlausn þessa máls frá upphafi. Í þessu samhengi tekur ráðherrann undir afstöðu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna gagnvart hernaðaraðgerðum af mannúðarástæðum. Þegar ríki hætti að vernda borgarana og snúist beinlínis gegn þeim með grófum mannréttindabrotum megi alþjóðasamfélagið ekki standa aðgerðarlaust hjá.

Ráðherra vekur athygli á formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Hann notar tækifærið til að undirstrika mikilvægi samvinnu milli Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda. Slík samvinna eigi sér stað í Kosóvó, þar sem þessar tvær stofnanir vinni, ásamt öðrum, að útfærslu ályktunar öryggisráðsins nr.1244 og Stöðuleikasáttmála fyrir Suðaustur-Evrópu. Fyrirbyggjandi aðgerðir séu meginuppistaða starfsemi Evrópuráðsins á sviði mannréttinda og lýðræðis.

Hann minnir á sögulegt mikilvægi samkomulags Portúgala og Indónesa um Austur-Tímor og harmar það ofbeldi sem átti sér þar stað í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Austur-Tímor. Hann ítrekar stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar við ályktun öryggisráðsins nr.1264 og fagnar sendingu fjölþjóðasveitar á vettvang. Ekkert megi koma í veg fyrir áform Austur-Tímorbúa um sjálfstæði.

Ráðherrann fagnar jákvæðum breytingum í friðarátt í Miðausturlöndum og hvetur önnur ríki í þessum heimshluta að grípa tækifæri það sem nú gefst til lausnar þessum langvinna vanda.

Ráðherra samhryggist Tyrkjum, Grikkjum og íbúum Tævan vegna jarðskjálfta sem þar hafa gengið yfir og kostað þúsundir manna lífið. Ísland hafi ákveðið að ganga til liðs við þá stofnun Sameinuðu þjóðanna sem starfar að úttekt á náttúruhamförum og samræmingu viðbragða við þeim (UNDAC).

Í lok ræðu sinnar segir ráðherra að á öldinni sem sé að líða undir lok hafi mannkynið unnið sína stærstu sigra en jafnframt beðið sína stærstu ósigra. Fjöldi þjóða hafi unnið sig frá stríði til friðar og frá fátækt til velmegunar á meðan aðrar þjóðir hafi farið á mis við þessi markmið. Það sé ljóst að í upphafi nýs ársþúsunds verði óleyst vandamál og viðfangsefni enn af þeirri stærðargráðu að þau muni fylgja mannkyninu um árabil.

Ráðherrann undirstrikar að til að takast á við vanda framtíðarinnar þurfi að endurbæta og efla Sameinuðu þjóðirnar. Ef aðildarríkin axli ábyrgð sína og taki upp nauðsynleg ný vinnubrögð verði Sameinuðu þjóðirnar ætíð í farabroddi í sókn mannkyns eftir friði og velmegun. Ef aðildarríkin hafi ekki kjark til að gera nauðsynlegar breytingar geti þau ekki búist við að komandi kynslóðir geri það.

Ræða ráðherra fylgir hjálagt.





Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 24. september 1999.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics