Hoppa yfir valmynd

Ræða ráðherra á 51. allsherjarþingi S.þj.

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 074



Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hélt í dag ræðu fyrir Íslands hönd við upphaf 51. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna
í New York. Í ræðunni fjallaði utanríkisráðherra um stöðu Sameinuðu þjóðanna og ýmis stefnumál Íslands á vettvangi
þeirra.

Utanríkisráðherra fjallaði í upphafi um hið mikla umbótastarf, sem nú fer fram innan samtakanna og þörfina á því að búa
þau undir starfið á næstu öld. Í því sambandi lagði hann áherslu á að breytingar yrðu gerðar á starfsemi Öryggisráðsins, sem
endurspegluðu breyttar aðstæður í heiminum. Hann kvað einnig nauðsynlegt að styrkja starf samtakanna að efnahags- og
félagsmálum og minntist á framboð Íslands til Efnahags- og félagsmálaráðsins (ECOSOC) og áhuga Íslendinga á öflugri
þátttöku í því.

Hann hvatti aðildarríki til að staðfesta sem fyrst Samninginn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn, sem flest
aðildarríki Sameinuðu þjóðanna undirrituðu við hátíðlega athöfn sl. þriðjudag sem hann kvað mikilvægt skref í átt til
útrýmingar kjarnavopna. Utanríkisráðherra lagði áherslu á stefnu Íslands að framleiðsla, notkun og sala jarðsprengja verði
algerlega bönnuð.

Utanríkisráðherra fjallaði um það hlutverk Sameinuðu þjóðanna að koma í veg fyrir átök og fagnaði stofnun alþjóðlegra
stríðsglæpadómstóla. Hann minntist ennfremur á baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, einkanlega tengsl
hryðjuverkastarfsemi og ólöglegrar fíkniefnasölu. Þá lýsti hann stuðningi við fyrirhugað aukaallsherjarþing Sameinuðu
þjóðanna árið 1998 um baráttuna gegn eiturlyfjasölu.

Í ræðu sinni fjallaði utanríkisráðherra um hið mikla starf samtakanna á síðustu árum gegn fátækt, umhverfismengun,
félagslegum ójöfnuði og mannréttindabrotum. Hann gerði málefni barna sérstaklega að umtalsefni og hvatti til þess að
samþykktum leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um málefni barna og ályktunum nýlegrar ráðstefnu í Stokkhólmi um
kynferðislega misnotkun gegn börnum yrði vel fylgt eftir.

Halldór Ásgrímsson lét í ljós þá von, að hinn fyrirhugaði leiðtogafundur um fæðuvandamál á vegum Matvæla- og
landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem haldinn verður í Róm í nóvember, myndi stuðla að því að fæðuöryggi alls
mannkyns yrði tryggt í framtíðinni.

Utanríkisráðherra vakti athygli á miklum möguleikum til fæðuöflunar í hafinu og starfi Íslands að nýtingu lífrænna auðlinda
hafsins. Íslendingar væru reiðubúnir að miðla öðrum þjóðum af tækniþekkingu sinni á þessu sviði. Hann minntist einnig á
alþjóðlegt samstarf innan ramma Sameinuðu þjóðanna að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins, og nú síðast
samkomulags um deilistofna og miklar fartegundir.

Ráðherrann fjallaði um starf Íslendinga að samningu alþjóðlegrar framkvæmdaáætlunar til að vernda umhverfi hafsins gegn
mengun frá landstöðvum og ályktunar í tengslum við hana, sem borin verður upp á 51. allsherjarþinginu. Þá fagnaði hann
ennfremur tillögu innan Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna um stofnun alþjóðlegrar nefndar á næsta ári til að vinna
að samkomulagi um takmörkun á notkun þrávirkra efna.

Í lok ræðu sinnar minntist Halldór Ásgrímsson á, að Íslendingar fagna á þessu ári fimmtíu ára aðild að Sameinuðu
þjóðunum.

Í tengslum við heimsókn sína á 51. allsherjarþingið átti utanríkisráðherra stutta fundi með starfsbræðrum sínum frá ýmsum
löndum. Hann ræddi við utanríkisráðherra Slóveníu, Króatíu og Bosníu-Hersegóvínu um ástandið á Balkanskaga og
framtíðarstöðu þessara ríkja í hinum vestræna heimi. Við utanríkisráðherra Bosníu-Hersegóvínu ræddi hann einnig um
aðstoð Íslands við uppbyggingu í landinu.

Utanríkisráðherra átti einnig fundi með starfsbræðrum sínum frá Namibíu og Mósambík einkum um þróunaraðstoð
Íslendinga.



Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 27. september 1996

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics