Hoppa yfir valmynd

Íbúar njóti ávaxta efnahagsumsvifa með ábyrgri auðlindastjórnun

Gunnar Bragi Sveinsson í Tromsö
Gunnar Bragi í ræðustól

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í dag þátt í utanríkisráðherrafundi Barentsráðsins sem fram fór í Tromsø í Noregi. Í ræðu sinni á fundinum lagði ráðherra áherslu á mikilvægi svæðisbundins norðurslóðasamstarfs og þau sameiginlegu tækifæri og áskoranir sem ríkin á Barentssvæðinu og nágrannar þeirra deila. Ráðherra ræddi meðal annars þá miklu möguleika sem ríkar náttúruauðlindir svæðisins fela í sér. "Það er mikilvægt að íbúar svæðisins njóti ávaxta aukinna efnahagsumsvifa þar sem til grundvallar liggi ábyrg auðlindastjórnun og markmiðum um sjálfbærni," segir ráðherra.

Í ræðu sinni sagði hann auknar siglingar um Norður-Íshafið færa með sér ýmis tækifæri en jafnframt leggja aukna ábyrgð á herðar stjórnvalda á sviði umhverfis- og öryggismála. Fjallaði hann af því tilefni um áherslur ríkisstjórnarinnar á mikilvægi björgunarmála á norðurslóðum. Ráðherra fagnaði áherslu á endurnýjanlega orkugjafa í ráðherrayfirlýsingu fundarins samhliða því að ríkin á norðurslóðum vinni gætilega að frekari nýtingu olíu- og gasauðlinda. Þá ræddi ráðherra loftslagsmál og mikilvægi þátttöku frumbyggja í norðurslóðasamstarfi, sem og aukinn þunga í norðurslóðastefnu Íslands á samvinnu við atvinnulífið og áherslu á kynjajafnréttismál á norðurslóðum.

Aðild að Barentsráðinu eiga Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur, Rússland, Svíþjóð og Evrópusambandið. Tveggja ára formennsku Noregs í ráðinu lauk á fundinum í Tromsø og verður Finnland formennskuríki fram til ársins 2015.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics