Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherra átti fund með Mattis í Pentagon

James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í Pentagon í dag. - myndDVIDS

Samvinna Íslands og Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum og innan Atlantshafsbandalagsins voru meðal umræðuefna á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, og James Mattis varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í Washington í dag.

„Samvinna Íslands og Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum á sér langa sögu og hefur þróast í áranna rás. Undanfarin ár hefur samstarf ríkjanna farið mjög vaxandi samhliða breyttu öryggisumhverfi í Evrópu og á norðanverðu Atlantshafi. Atlantshafstengslin eru mikilvægari nú sem aldrei fyrr og gagnkvæmar skuldbindingar Íslands og Bandaríkjanna standa óhaggaðar. Við fórum yfir mikilvægi samstöðu vestrænna ríkja sem deila sömu gildum í því breytilega öryggisumhverfi sem við búum við,“ segir Guðlaugur Þór.

Jim Mattis tekur á móti Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir utan Pentagon
Á fundinum ræddu ráðherrarnir helstu áherslumál á vettvangi Atlantshafsbandalagsins í aðdraganda leiðtogafundar bandalagsins í sumar, þ.m.t. auknar áherslur á mikilvægi Norður-Atlantshafsins. Einnig var loftrýmisgæsla og kafbátarleit og varnaræfingin Trident Juncture 2018 til umfjöllunar. Þá voru helstu viðfangsefni á alþjóðavettvangi til umræðu, þ.m.t. málefni Miðausturlanda og staða mála á Gaza. Einnig voru málefni norðurslóða á meðal fundarefna.

Jim Mattis og Guðlaugur Þór í Pentagon í dag

„Ísland er meðal stofnríkja Atlantshafsbandalagsins og borgaralegt framlag Íslands í þágu eigin og sameiginlegra varna bandalagsríkja, sem hefur farið vaxandi á umliðnum árum, er vel metið hér vestan hafs og Ísland álitið áreiðanlegt og trúverðugt bandalagsríki,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Utanríkisráðherra átti einnig fundi með Dan Sullivan og Lisu Murkowski, öldungardeildaþingmönnum Alaska, þar sem fríverslun og fjárfestingar, sem og málefni norðurslóða og fyrirhuguð formennska Íslands í Norðurskautsráðinu á næsta ári voru til umræðu.

Geir H. Haarde, sendiherra Íslands í Washington, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Lisa Murkowski öldungadeildarþingmaður.
Í gær átti Guðlaugur Þór fundi með háttsettum embættismönnum í þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna þar sem málefni Miðausturlanda og samskiptin við Rússland voru til umræðu. Þá ávarpaði ráðherra hugveituna Heritage Foundation þar sem viðskiptamál, öryggismál og norðurslóðamál voru í brennidepli.


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics