Hoppa yfir valmynd

Fundur utanríkisráðherra aðildarríkja Eystrasaltsráðsins

Davíð Oddsson utanríkisráðherra ávarpaði í dag fund utanríkisráðherra aðildarríkja Eystrasaltsráðsins, sem stendur yfir í Stettin í Póllandi, en Ísland hefur tekið við formennsku í Eystrasaltsráðinu og mun gegna henni í eitt ár.

Eystrasaltsráðið var stofnað árið 1992 og voru stofnríkin 10, auk Evrópusambandsins. Ísland gerðist aðili árið 1995 og gegnir nú formennsku í fyrsta sinn. Samkvæmt reglum samtakanna er hlutverk þeirra að samræma og stuðla að samvinnu aðildarríkjanna í málum sem varða sameiginlega svæðisbundna hagsmuni þeirra. Starfandi eru á vegum ráðsins nefndir er fjalla um efnahagssamvinnu, geislavarnir, lýðræðisþróun, orkumál, umhverfismál, heilbrigðismál, upplýsingasamfélagið, málefni barna og ungmenna o.fl.

Í ræðu utanríkisráðherra kom fram að Eystrasaltsráðið gegnir mikilvægu hlutverki við að stuðla að hagsæld og stöðugleika á svæðinu. Miklar breytingar hafa átt sér stað á síðasta áratugi og góður árangur hefur náðst. Ráðið hefur áfram mikilvægu hlutverki að gegna og nefndi ráðherra sérstaklega samvinnu ráðsins við norðvesturhluta Rússlands. Utanríkisráðherra lagði áherslu á að þrátt fyrir að Ísland sé ekki við Eystrasaltið, tilheyri það Norður-Evrópu og hafi því mikinn áhuga á lýðræðisþróun á svæðinu sem og viðskiptum og fjárfestingum þar.

Sem formennskuríki í Eystrasaltsráðinu 2005-2006 mun Ísland leggja áherslu á samvinnu á sviði orku- og umhverfismála og stuðla að samvinnu við önnur svæðisbundin samtök, svo sem Norrænu ráðherranefndina, Barentshafsráðið og Norðurskautsráðið. Einnig verður lögð áhersla á að efla starf efnahagssamvinnunefndarinnar og nefnd um málefni barna verður veitt sérstök athygli. Ísland hefur ennfremur áhuga á að efla samvinnu þingmanna á svæðinu og á aukinni samvinnu við Úkraínu.

Samhliða formennsku í Eystrasaltsráðinu mun Ísland gegna formennsku næsta árið í þremur mikilvægum nefndum ráðsins, efnahagssamvinnunefndinni, orkumálannefndinni og í nefnd háttsettra embættismanna. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur boðið til fundar orkumálaráðherra aðildarríkja Eystrasaltsráðsins á Íslandi í október n.k.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics