Hoppa yfir valmynd

Ráðherrafundur WTO í Hong Kong

Frá ráðherrafundi WTO
Frá ráðherrafundi WTO

Nr. 038

FRÉTTATILKYNNING
Frá utanríkisráðuneytinu

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, situr nú ráðherrafund Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem haldinn er í Hong Kong. Slíkir ráðherrafundir eru haldnir að jafnaði á tveggja ára fresti og hafa æðsta vald í málefnum stofnunarinnar. Fundurinn í Hong Kong er sá sjötti síðan stofnunin tók til starfa árið 1995. Dohaviðræðurnar um aukið frjálsræði í viðskiptum eru meginviðfangsefni fundarins en það er yfirlýst markmið aðildarríkjanna 149 að ljúka þeim fyrir lok næsta árs.

Fyrr í dag flutti utanríkisráðherra ræðu á fundinum. Ráðherra ítrekaði mikilvægi þess að Dohaviðræðunum verði lokið á næsta ári með metnaðarfullum hætti og að miklir hagsmunir væru í húfi. Að mati Alþjóðabankans gæti verið innan seilingar að leysa hundruð milljóna manna úr viðjum fátæktar.

Ráðherra sagði mikilvægt að árangur næðist á öllum sviðum viðskipta og hvatti sérstaklega til takmarkana á ríkisstyrkjum í sjávarútvegi.

Ráðherrann vakti athygli á að meirihluti innfluttra landbúnaðarafurða kæmi til Íslands án nokkurra viðskiptahindrana, þ.á m. væru flestar mikilvægustu útflutningsvörur vanþróuðustu ríkjanna. Ísland hefði afnumið útflutningsbætur í upphafi tíunda áratugarins og væri nú reiðubúið að lækka tolla og framleiðslutengdan innanlandsstuðning verulega, að því tilskildu að jafnvægi skuldbindinga yrði ásættanlegt. Ljóst væri að aðlaga þyrfti rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar að slíkum nýjum skuldbindingum. Breytingar þyrfti hins vegar að gera með varkárni og með tilliti til margra þátta sem ekki væru viðskiptalegs eðlis. Gera þyrfti ráð fyrir tilhlýðilegum sveigjanleika í þessum efnum ættu niðurstöður að vera framkvæmanlegar fyrir öll aðildarríkin.

Utanríkisráðherra hvatti til þess að gætt yrði að innra jafnvægi í samningsniðurstöðum því þannig mætti tryggja að neytendur jafnt sem framleiðendur, bæði í iðnríkjum og í þróunarríkjum, nytu þess mikla ávinnings sem samkomulag gæti leitt af sér.

Ráðherra sat í dag samráðsfund norrænna utanríkisviðskiptaráðherra sem var haldinn í tengslum við ráðherrafund Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ráðherrarnir ræddu stöðuna í Doha viðræðunum og Afríkuframtak Norðurlandanna en markmið þess er að efla samráð og samskipti Norðurlandanna og Afríkuríkja um viðskipti og þróunarmál. Utanríkisráðherra gerði á fundinum grein fyrir stöðu aðildarviðræðna Rússlands en fulltrúi Íslands leiðir um þessar mundir vinnuhóp Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um aðild þeirra.

Ráðherra hefur einnig átt óformlega fundi með öðrum utanríkisráðherrum.

Ræða Utanríkisráðherra.

Geir H Haarde a fundi WTO

Frá ráðherrafundi WTO
Frá ráðherrafundi WTO

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics