Hoppa yfir valmynd

Forsætisráðherra ávarpar ráðstefnu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um framtíð vinnunnar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra - mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði ráðstefnu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, um framtíð vinnunnar sem haldin er í Hörpu í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. 

Forsætisráðherra sagði Norðurlöndin fyrirmynd annarra landa hvað varðar háa atvinnuþátttöku kvenna og að ýmsar aðgerðir hafi aukið sveigjanleika vinnumarkaðarins:

„Á Íslandi hefur sterk kvennahreyfing og öflugt samstarf stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins tryggt mikla atvinnuþátttöku kvenna sem er undirstaða velferðar og efnahagslegrar hagsældar“, sagði forsætisráðherra. 

Þá sagði hún að mikilvægt væri að ríki heims næðu árangri í jafnréttismálum og tryggðu að jöfn laun væru greidd fyrir jafn verðmæt störf, líkt og samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá árinu 1951 gerði ráð fyrir. Íslensk stjórnvöld leggi áherslu á jafnrétti kynjanna og stefni að því að uppræta kynbundinn launamun fyrir árið 2022. Forsætisráðherra sagði að með samþykkt laga um jafnlaunavottun hefði Ísland skipað sér í forystu landa sem á undanförnum árum hefðu kynnt nýjar lausnir í stefnumótun um framfylgd samþykktar ILO um jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf. Þessar lausnir feli í sér náið samstarf við samtök aðila vinnumarkaðarins og aukna ábyrgð vinnustaða og atvinnurekenda á aðgerðum gegn launamun kynjanna.

Ráðstefnan fjallar um þróun vinnunnar við örar tæknibreytingar, áhrif þeirra á norræna velferðarmódelið og jafnrétti á vinnumarkaði. Alþjóðavinnumálastofnunin (International Labour Organization, ILO) hóf störf í kjölfar fyrri heimstyrjaldarinnar árið 1919 og fagnar því aldarafmæli á þessu ári. Í tilefni afmælisins hefur stofnunin birt skýrslur um nauðsynlegar aðgerðir aðildarríkjanna til að mæta breytingum á vinnumarkaði þar sem m.a. er mælt með að þjóðir heims innleiði umbætur sem auki atvinnuþátttöku kvenna, fjárfesti í fæðingarorlofi og vinni gegn frekari kynjaskiptingu starfa.

Í aðdraganda ráðstefnunnar stóð forsætisráðuneytið, í samstarfi við ILO og Norrænu ráðherranefndina, fyrir málþingi um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði. Ísland er eitt þeirra landa sem á aðild að sérstöku átaksverkefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, OECD og UN Women EPIC, Equal Pay International Coalition. Málþingið sóttu rúmlega 80 manns frá yfir tuttugu löndum en meginefni þess var að ræða aðferðafræði rannsókna um jafnlaunamál.

Ræða forsætisráðherra í heild sinni


Tags

5. Jafnrétti kynjanna

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics