Hoppa yfir valmynd

Nr. 058, 21.06.2001 Ráðherrafundur EFTA í Vaduz 21. júní 2001

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 058


Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra undirritaði í dag samning um endurskoðun á stofnsáttmála Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) ásamt ráðherrum Liechtenstein, Noregs og Sviss á fundi þeirra í Vaduz í Liechtenstein. Þeir ákváðu á fundi sínum vorið 1999 í Lillehammer í Noregi að endurskoða sáttmálann í ljósi þróunar síðustu áratuga og með tilliti til tvíhliða samninga Sviss við Evrópusambandið.
Með endurskoðuninni hafa EFTA-ríkin útvíkkað samstarf sitt og bætt við ákvæðum m.a. um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, fólksflutninga, gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda, opinber innkaup og reglum um úrlausn deilumála.
Ráðherrarnir undirrituðu einnig fríverslunarsamninga við Jórdaníu og Króatíu. Þeir lögðu áherslu á að þessir samningar væru mikilvægt skref í átt að fullri fríverslun í Evrópu og aðliggjandi markaðssvæðum. EFTA ríkin hafa nú undirritað fríverslunarsamninga við 18 ríki (Búlgaríu, Eistland, Ísrael, Jórdaníu, Króatíu, Lettland, Litháen, Makedóníu, Mexíkó, Marokkó, Palestínu, Pólland, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland).
Á fundinum var m.a. rætt um samskipti EFTA við þriðju ríki, samskipti EFTA við Evrópusambandið, EES-samninginn og innri málefni EFTA.
Ráðherrarnir lýstu ánægju með árangur í samningaviðræðum um fríverslun við Chíle og fögnuðu því að ákveðið hefur verið að halda fyrstu lotu samningaviðræðna við Singapúr í júlí. Ennfremur lögðu þeir áherslu á að ljúka fljótt viðræðum við Kanada.
Ráðherrarnir fögnuðu árangri í viðræðum um fjölgun aðildarríkja ESB og ítrekuðu nauðsyn þess að EES-samningurinn verði aðlagaður fjölgun aðildarríkja ESB.
Í dag var einnig haldinn fundur utanríkisráðherra EFTA og þingmannanefndar samtakanna þar málefni EFTA og EES samstarfsins voru rædd auk þróunarinnar í Evrópu almennt.

Meðfylgjandi er fréttatilkynning EFTA frá fundinum.






Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 21. júní 2001.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics