Hoppa yfir valmynd

Íslensk stjórnvöld veita Líbíu neyðaraðstoð

Íslensk stjórnvöld munu veita 12 milljónum króna til alþjóðlegrar neyðaraðstoðar í Líbíu samkvæmt ákvörðun Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra. Neyðarástand ríkir í landinu og tugir þúsunda flóttamanna hafa farið yfir landamærin frá Líbíu til Egyptalands og Túnis.

Framlag íslenskra stjórnvalda rennur til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) samkvæmt ákalli stofnananna um framlög til hjálparstarfs. Sex milljónir króna verða veittar til Matvælaáætlunarinnar og sama upphæð til Flóttamannahjálparinnar. 

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna mun koma matvælum og öðrum hjálpargögnum til rúmlega einnar milljónar manna í Líbíu, Egyptalandi og Túnis. Fyrstu áætlanir gera ráð fyrir þriggja mánaða hjálparstarfi og eru flutningar á matvælum til Líbíu þegar hafnir. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna mun bregðast við þörfum flóttamanna, en ekki er aðeins um að ræða fólk frá ríkjunum þremur heldur einnig tugi þúsunda ríkisborgara annarra ríkja sem störfuðu í Líbíu.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics