Hoppa yfir valmynd

Ráðherra skipar samráðshóp lykilaðila í menntakerfinu

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur kallað saman samráðshóp lykilaðila í menntakerfinu til þess að vinna að því mikilvæga verkefni að halda uppi námi og kennslu í skólum við þær fordæmalausu aðstæður sem skapast hafa í íslensku samfélagi. Fyrsti fundur hópsins fór fram á fimmtudaginn. Mikil samskipti hafa síðan átt sér stað, sér í lagi í kjölfar tilkynningar um takmörkun á skólahaldi í gær. Markmið hópsins er að tryggja að sem best verði haldið utan um skólastarf með hagsmuni og velferð nemenda að leiðarljósi.

Samráðshópurinn er skipaður fulltrúum frá: Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skólastjórafélagi Íslands, Skólameistarafélags Íslands, Félagi stjórnenda leikskóla, Félagi leikskólakennara, Félagi grunnskólakennara, Félagi framhaldsskólakennara, Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, Umboðsmanni barna, Samtakanna Heimilis og skóla, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Landssamtökum íslenskra stúdenta, Samfés, Menntamálastofnunar, Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Hólum, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Undanfarna daga hef ég einnig átt fjarfundi með rektorum og skólastjórnendum, öðrum fræðsluaðilum og fulltrúum sveitarfélagana. Þessir lykilaðilar í skólakerfinu okkar hafa sýnt mikla yfirvegun og samstöðu, og ég er þakklát fyrir þeirra góðu viðbrögð og forystu í þessum krefjandi aðstæðum. Öllum er ljóst að takmarkanir á skólahaldi og samkomubann sem gilda mun frá og með mánudeginum 16. mars mun hafa umtalsverð áhrif á skólastarf. Aðstæður skólanna eru mismunandi en það er verkefni okkar að skipuleggja starfsemina sem best tilliti með til nýrra aðstæðna.“

Tags

4. Menntun fyrir öll

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics