Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherra heimsækir höfuðstöðvar háskóla SÞ

Gunnar Bragi og David Malone.

Utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, heimsótti í dag höfuðstöðvar háskóla Sameinuðu þjóðanna sem staðsettar eru í Tókýó. 

Á fundi utanríkisráðherra með rektor skólans, David Malone,  var m.a. rætt um starfsemi skólans og þá háskóla SÞ sem eru á Íslandi auk þess sem samningur um starfsemi Jarðhitaskólans var endurnýjaður til næstu fimm ára. Um er að ræða þríhliða samning milli íslenskra stjórnvalda, HSÞ og Orkustofnunar.  Ráðherra hitti jafnframt nemendur skólans, hélt erindi um Ísland og svaraði spurningum þeirra. Í stuttu erindi sínu ræddi  utanríkisráðherra um ýmsa þætti í þróun íslensks samfélags til dagsins í dag auk þess að fjalla sérstaklega um loftslagsmál og sjálfbæra þróun.

 Þá hélt Gunnar Bragi einnig erindi í  Japan National Press Club um stefnu stjórnvalda á Íslandi, tvíhliða samskipti ríkjanna og umhverfismál og svaraði spurningum fréttamanna. Vinnuheimsókn Gunnars Braga í Japan lýkur í dag 
---
Um háskóla SÞ á Íslandi 

Fjórir skólar starfa undir hatti háskóla SÞ á Íslandi:  Jarðhitaskóli, stofnaður 1979, Sjávarútvegsskóli, stofnaður 1998, Landgræðsluskóli, stofnaður 2010 og  Jafnréttiskóli, stofnaður 2013.  Sérstök áhersla er lögð á þá í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna.

Jarðhitaskólinn veitir sérfræðingum frá þróunarlöndum sérhæfða þjálfun í rannsóknum og nýtingu jarðhita og hafa um 590 nemendur frá 58 löndum, útskrifast úr sex mánaða þjálfun við skólann og frá því að námskeiðahald hófst árið 2005 hafa 920 sérfræðingar sótt námskeið skólans í þróunarlöndum. Forstöðumaður Jarðhitaskólans er Lúðvík S. Georgsson.

Alls hafa nær 1.000 nemendur, frá 90 löndum, útskrifast úr sex mánaða þjálfun við skólana auk þess sem hátt í 2.000 nemendur hafa tekið þátt í námskeiðum á vegum skólanna í þróunarlöndum. Starfsemi skólanna fjögurra er hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands, og samkvæmt áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013-2016 eru háskólar SÞ ein fjögurra alþjóðastofnana sem sérstök áhersla er lögð á að styðja í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu. 

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics