Hoppa yfir valmynd

Fjármagn tryggt til framhalds- og háskóla til að mæta aukinni aðsókn

Framhalds- og háskólum verður tryggt nægt fjármagn til að mæta metaðsókn í skólana, samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Áætlanir gera ráð fyrir að á komandi skólaári fjölgi nemendum á framhaldsskólastigi um allt að 2.000 og um 1.500 á háskólastigi. Umsóknum um háskólavist fjölgar um 23% milli ára og mikil aðsókn er í fjölbreytt starfs- og iðnnám framhaldsskólanna. Fjárveitingar verða útfærðar við vinnslu fjáraukalaga vegna ársins 2020, þegar fjárþörf skólanna liggur endanlega fyrir.

„Við viljum að okkar öfluga menntakerfi geti mætt aukinni eftirspurn og fjölgun nemenda. Ég er stolt af skólunum okkar og því góða fólki sem þar starfar. Það hefur mikið mætt á þeim en stjórnendur, kennarar og nemendur hafa sýnt styrk og sveigjanleika á flóknum tímum – og fyrir það erum við þakklát. Stjórnvöld hafa einsett sér að lágmarka félags- og efnahagslegar afleiðingar COVID-19 faraldursins og þar er menntun eitt mikilvægasta tækið. Það hefur sjaldan verið nauðsynlegra en nú að tryggja aðgengi að menntun og við ætlum svo sannarlega að ná því takmarki,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Innritun nýnema yngri en 18 ára í framhaldsskólana miðar vel en jafnframt er unnið að innritun eldri nemenda í samvinnu við Menntamálastofnun. Aðsókn eldri nema er mest í fjölbreytt starfsnám framhaldsskólanna og er unnið að því að tryggja að sem flestir þeirra komist í nám. Gangi spá eftir gæti nemendum á framhaldsskólastigi fjölgað um allt að 10% ef við bætast 2.000 viðbótar nemendur á næstu misserum.

Umsóknum um háskólanám á haustönn fjölgar um 23% milli ára þegar horft er á háskólakerfið í heild og er ráðgert að dreifa viðbótarfjármagni til samræmis við aukna aðsókn í hverjum skóla. Endanlegar innritunartölur koma þó ekki í ljós fyrr eftir að nemendur hafa greitt skráningargjöld sín í ágúst. Ef miðað er við reynslu fyrri ára má búast við að um 66% umsækjenda innritist í nám að hausti 2020 en með tilliti til atvinnuástands má búast við að þetta hlutfall hækki nokkuð. Því er nauðsynlegt að endurskoða áætlanir um fjölda nemenda þegar innritun er lokið.

Tags

4. Menntun fyrir öll

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics