Hoppa yfir valmynd

Viðvaranir vegna ferðalaga til Taílands, Indónesíu, Indlands, Srí Lanka, og Maldíveyja

Vegna hörmunganna sem áttu sér stað þegar flóðbylgja skall á ríki í suðaustur Asíu vill utanríkisráðuneytið koma eftirfarandi tilmælum til þeirra er hyggja á ferðir til svæðisins:

Taíland

Utanríkisráðuneytið varar við ferðalögum til suðvestur hluta Taílands, þar með talið Phuket, Krabi, Phi Phi eyju, sem og annarra eyja í nágrenninu. Ferðalöngum til annarra svæða í Taílandi er ráðlagt að kynna sér vel aðstæður, m.a. með því að hafa samband við ferðaskrifstofur og hótel, sem og að afla sér með öðrum hætti nákvæmra upplýsinga um hvort öruggt sé að ferðast til viðkomandi áfangastaðar.

Indónesía

Utanríkisráðuneytið varar við ferðalögum til Norður-Súmötru, og þá sérstaklega til Aceh héraðs. Ferðalöngum til annarra svæða í Indónesíu er ráðlagt að kynna sér rækilega aðstæður og ráðleggingar þarlendra stjórnvalda áður en lagt er af stað.

Indland

Utanríkisráðuneytið varar við ferðalögum til suðaustur strandar Indlands, og þá sérstaklega til Tamil Nadu héraðs, Andra Pradesh og til eyjanna Nicobar og Andaman.

Srí Lanka

Stjórnvöld í Srí Lanka hafa lýst yfir neyðarástandi og ráðleggur utanríkisráðuneytið íslenskum ríkisborgurum frá því að ferðast þangað nema brýna nauðsyn beri til.

Maldíveyjar

Stjórnvöld á Maldíveyjum hafa lýst yfir neyðarástandi og ráðleggur utanríkisráðuneytið íslenskum ríkisborgurum frá því að ferðast þangað nema brýna nauðsyn beri til.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics