Hoppa yfir valmynd

Af vettvangi fastanefndar Íslands hjá SÞ í febrúar 2020

Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í NY - mynd

Það hefur verið nóg að gera hjá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðununum í New York þennan mánuðinn. Hér er stiklað á stóru yfir það helsta. 

Vettvangur smáríkja (Forum of Small States) fundaði í lok mánaðarins og ræddi þar m.a. 75 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna sem haldið verður upp á síðar á árinu. Singapore leiðir vinnuna, en aðildarríkin eru 108.

 

Ísland tekur þátt í bandalagi ríkja til stuðnings fjölþjóðasamvinnu, sem leitt er af Þýskalandi. Fastafulltrúi sótti fund bandalagsins, en þar var m.a. fjallað um mikilvægi þess að ríki heims virði alþjóðlegar skuldbindingar varðandi mannréttindi.

 

Utanríkisráðherra tók þátt í fundarlotu mannréttindaráðs SÞ í Genf. Þar setti hann fram ákall til þeirra rúmlega 70 aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna sem skilgreina samkynhneigð sem glæp og hvatti til endurskoðunar á slíkum lögum.

 

Á sérstökum fundi, í tengslum við vinnu öryggisráðsins, um vernd þeirra sem berjast fyrir mannréttindum (human rights defenders) undirstrikuðu Norðurlöndin mikilvægi þess að tryggja öryggi þeirra sem taka þátt í slíkri baráttu.

 

Hvernig segir maður „Sameinuðu þjóðirnar“ á samísku eða sænsku? Fastanefnd fór á stúfana og kannaði málið á alþjóðlega móðurmálsdeginum.

 

Könnun Sameinuðu þjóðanna í tilefni af 75 ára afmæli stofnunarinnar er nú aðgengileg á íslensku, en þar gefst fólki kostur á því að taka þátt í samtali um hlutverk alþjóðlegrar samvinnu til framtíðar.

 

Í umræðu allsherjarþingsins um stöðu mála í austurhluta Úkraínu flutti fastafulltrúi Eistlands ræðu fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Ítrekað var mikilvægi þess að Minsk samkomulagið yrði virt að fullu.

 

58. fundi nefndar um félagslega þróun lauk í mánuðinum. Ísland hefur átt sæti í nefndinni síðustu fjögur ár og gegndu fulltrúar fastanefndar m.a. í hlutverki formanns árið 2018 og varaformanns 2019. Markmið Íslands á tímabilinu voru bættar tengingar við heimsmarkmiðin og auknar áherslur á vinnu sem snýr að því að draga úr ójöfnuði.

 

Á stjórnarfundi UN Women, stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna, fór fulltrúi alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu ráðuneytisins yfir mikilvægi landsnefnda og mánaðarlegra framlaga fyrir stofnunina.

 

Þá fluttu Norðurlöndin einnig sameiginlega yfirlýsingu á stjórnarfundinum þar sem ítrekaður var stuðningur ríkjanna við UN Women.

 

Í öryggisráðinu töluðu Norðurlöndin fyrir því mikilvæga hlutverki sem frjáls félagasamtök og konur gegna í umbreytingar- og friðarferlum.

 

Fastafulltrúi Noregs flutti erindi fyrir hönd Norðurlandanna á fundi þar sem kynntar voru nýjar leiðbeiningar um vernd barna í vopnuðum átökum. Þar hvatt hún til þess að hlustað væri á raddir barna.

 

Írski söngvarinn Bono tók þátt í fundi fastanefndar Írlands um ákall til alþjóðasamfélagsins varðandi aðgengi stúlkna að menntun. Þar voru m.a. kynntar sögur stúlkna um allan heim og aðgerðir til að koma þeim til náms.

 

Þessi misserin stendur yfir endurskoðun á ályktunum sem snúa að starfi Efnahags- og félagsmálaráðs SÞ (ECOSOC) og árlegum ráðherrafundi um heimsmarkmiðin (High-Level Political Forum), sem fjallar um stöðu ríkja gagnvart heimsmarkmiðunum og framgang markmiðanna.

 

Mannfjöldasjóður SÞ (UNFPA) kynnti skýrslu um stöðu mannúðarmála í heiminum. Framkvæmdastjóri UNFPA undirstrikaði mikilvægi þess að ríki heims virði mannréttindi og alþjóðamannúðarlög. Stofnunin vinnur m.a. að verkefnum sem stuðla að upprætingu á limlestingum á kynfærum kvenna.

 

Ísland styður fjárhagslega við stjórnmála- og friðarskrifstofu SÞ (DPPA), en í mánuðinum fór fram ársfundur skrifstofunnar og var þar kynnt stefnumótun til næstu ára.

 

Málefni hafsins skipa veigamikinn sess í starfi fastanefndarinnar í NY. Hafráðstefna SÞ um framkvæmd heimsmarkmiðs 14 fer fram í Lissabon í júní næstkomandi. Skrifstofustjóri skrifstofu tvíhliða samstarfs og svæðisbundinna málefna tók þátt í undirbúningsfundi fyrir ráðstefnuna ásamt fastanefnd.

 

Ísland fer fyrir vinahópi um landgræðslumál á vettvangi SÞ ásamt Namibíu. Hópurinn fundaði með framkvæmdastjóra Eyðimerkursamnings SÞ meðan á heimsókn hans til NY stóð.

 

Fastafulltrúi fundaði einnig með framkvæmdastjóra Eyðimerkursamningsins og fékk að kynnast því helsta sem fram undan er á þeim vettvangi.

 

 

 

Þá hélt fastafulltrúi áfram kurteisisheimsóknum til fulltrúa annara ríkja og hitti m.a. í mánuðinum fastafulltrúa Indónesíu, Dian Triansyah Djani.

 

Boðað var til óformlegs samráðsfundar með frjálsum félagasamtökum á vettvangi þriðju nefndar (sem m.a. fjallar um mannréttinda- og mannúðarmál). Kanada flutti sameiginlega yfirlýsingu fyrir hönd fjallahópsins sem er samráðshópur Ástralíu, Íslands, Kanada, Liechtenstein, Noregs, Nýja Sjálands og Sviss á vettvangi nefndarinnar

 

Í byrjun mánaðar hófust samningaviðræður vegna pólitískrar yfirlýsingar fundar kvennanefndar SÞ (CSW) sem fram fer í mars. Fulltrúi fastanefndar hefur tekið virkan þátt í samningaviðræðum, en meðal sértækra áherslumála Íslands voru vísanir í þátttöku drengja og karla í jafnréttisumræðunni, loftslagsmál, uppræting á kynbundnu ofbeldi og mikilvægt hlutverk félagasamtaka.

 

Fyrrum forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, heimsótti fastanefndina í New York í byrjun mánaðar og fundaði með fastafulltrúa Kanada um málefni norðurslóða.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics