Hoppa yfir valmynd

Fjórir kosningaeftirlitsmenn til Makedóníu og Móldóvu

Kosningaeftirlit Georgía
Kosningaeftirlit Georgía

Tveir kosningaeftirlitsmenn halda í þessari viku til Makedóníu þar sem forsetakosningar fara fram á sunnudag, 22. mars. Viku síðar fara tveir fulltrúar til Moldóvu til að fylgjast með þingkosningum sem fram fara 5. apríl. Þátttaka í kosningaeftirlitinu, sem fram fer á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), er ein alþjóðaskuldbindinga Íslendinga. Gert er ráð fyrir því að senda íslenska kosningaeftirlitsmenn til starfa í fimm kosningum á þessu ári. Það er nokkru færra en verið hefur en í hagræðingarskyni verða færri sendir en undanfarin ár og eingöngu til skamms tíma.

Ísland hefur um árabil tekið virkan þátt í kosningaeftirliti á vegum lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE (ODIHR), sem skipuleggur eftirlitið fyrir hönd stofnunarinnar. Allar 56 aðildaþjóðir ÖSE hafa skuldbundið sig til þátttöku í kosningaeftirliti og til að bjóða ÖSE til eftirlits. Á hverju ári taka þúsundir manna þátt í kosningaeftirliti víðs vegar um Evrópu, Kákasus, Mið-Asíu og Norður-Ameríku á vegum stofnunarinnar.

Þátttakendur í kosningaeftirlit hafa flestir starfsreynslu úr fjölmiðlun, stjórnmálastarfi, háskólasamfélaginu og stjórnsýslunni en það er þó ekki algilt. Á síðasta ári störfuðu fjórtán skammtíma og fjórir langtíma eftirlitsmenn fyrir hönd Íslands við kosningaeftirlit með sex kosningum á vegum ÖSE, þar á á meðal í Georgíu og Bandaríkjunum. Skammtímaeftirlit varir að jafnaði í um viku, og beinist að kosningunni sjálfri, svo og talningu. Langtímaeftirlit stendur í um 3-8 vikur en þá er fylgst með undirbúningi kosninganna, kosningabaráttu og fjölmiðlaumfjöllun, svo og kærum og deilumálum sem upp kunna að koma í kjölfar kosninga.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics