Hoppa yfir valmynd

Aðventa í Berlín

Gunnar Snorri með skilti
Gunnar Snorri Gunnarsson

Þetta árið var komið að okkur í íslenska sendiráðinu að sjá um jólahald og skreytingar í sameiginlegri aðstöðu norrænu sendiráðanna í Berlín.   Við fengum Íslandsstofu og Reykjavíkurborg til liðs við okkur til að gera úr þessu kynningu á Reykjavíkurborg sem áfangastað ferðamanna að vetri til.  Þjóðverjar eru upp til hópa mikil jólabörn og var efnt til móttöku  þar sem fram var borið appelsín og malt, flatkökur og hangikjöt  og jólasveinar, íslenskir hestar og barnakórar tróðu upp.  Fjöldi gesta fór fram úr öllum vonum og umfjöllun í fjölmiðlum var fram eftir mánuði.    Mestu munaði hversu vel  blaðamenn tóku við sér en um fimmtíu mættu á svæðið og til viðbótar fulltrúar tíu ferðaskrifstofa.  Sýning á íslenskri hönnun tengdri jólum  stóð síðan fram yfir áramót.  Sú sýning var unnin í samvinnu við Handverk og Hönnun og voru m.a. sýndar skreytingar og dúkar eftir Hugrúnu, innblásið af laufabrauði.  Kærleikskúlurnar góðkunnu voru seldar í þágu  góðs málstaðar og jólasveinar Kristínar Þorgeirsdóttur fengu  verðskuldaða athygli.  Loks var efnt til leiks á Facebook með jólaskó í glugga þar sem íslensk hönnun var kynnt í samstarfi við Sparksdesign Space gallerí. 

Bók Gunnars Gunnarssonar, Aðventa , hefur selst í hundruðum þúsunda eintaka í Þýskalandi og er ávallt sýnileg í útstillingum helstu bókabúða Berlínarborgar fyrir jól.  Í samvinnu við Skriðuklaustur hefur sendiráðið efnt til upplestrar undanfarin þrjú ár  og telja Þjóðverjar það ekki eftir sér að sitja í tvo og hálfan tíma og hlusta á bókina alla.  Þáðu gestir heitt súkkulaði og kleinur í hléi.  Höfðu margir þeirra orð á því að hinn sanni jólaandi ríkti fremur yfir frásögn af baráttu við óblíð náttúruöfl og fórnfýsi Benedikts heldur en í ys og þys stórverslana.

Jólasveinn og börn

Í Berlín eru margir ungir Íslendingar og mikið um barnafólk.    Reynir það eftir föngum að leyfa börnunum að hittast og halda við íslenskunni.  Jólaball íslenskra barna í Berlín var haldið í sendiherrabústað 8, desember og mættu þar um 70 manns. Börnin fengu sælgætispoka frá Nóa-Siríus og aðrir styrktaraðilar lögðu fram jólatré og bækur handa börnunum.   Það er gott að geta nýtt bústaðinn  ekki aðeins sem móttökustað fyrir Þjóðverja heldur einnig fyrir yngstu kynslóðina.

Eftir stríð lögðu hundruð þýskra kvenna leið sína til Íslands og ílengdust margar þeirra þar, eignuðust börn og buru.    Þær eru nú farnar að týna tölunni og ekki seinna vænna að hefja hlut þeirra til vegs og virðingar.  Sendiráðið hefur áður staðið fyrir kynningu á bókum og skáldsögum um þetta efni en 6. Desember var ég viðstaddur frumsýningu í Berlín á myndinni Eisheimat þar sem saga nokkurra þessara kvenna er sögð.  Spunnust líflegar umræður að lokinni sýningu um þennan áhugaverða kafla í sögu samskipta Íslands og Þýskalands.

Ágæt aðstaða til tónleikahalds er í Felleshus og þar stóð sendiráðið fyrir tónleikum Hlínar Pétursdóttur Behrens sópransöngkonu.  Efnisskráin var að hluta til helguð jólum og flutti Hlín þýsk og íslensk lög og kynnti á þýsku.  Þetta árið hefur sendiráðið  lagt sérstaka áherslu á islenska  hestinn vegna heimsmeistaramótsins sem haldið var í ágúst í Berlín.  Það var því vel til fundið að dóttir Þjóðverja sem flutti til Íslands vegna áhuga á  islenskum hestum sæi um að syngja lokatóna ársins.

Berliner Morgenpost var með stutt viðtal við nokkra sendiherra, þ.m.t. undirritaðan  um jólahald í löndum þeirra á aðfangadag og birti með mynd af mér í lopapeysu með jólasveinum (tekin í ofannefndri jólakynningu) .  Í sama blaði var svo heilsíðuviðtal við Dag Sigurðsson, þjálfara handboltaliðsins Berliner Fuechse þar sem hann einnig skartaði íslenskri lopapeysu.

Það hefur verið gaman að fylgjast með stjórnarmyndunarviðræðum í  Þýskalandi undanfarna mánuði, suma fundina sátu yfir 70 manns en nú er niðurstaðan fengin.  Næsta verkefni verður að efla tengslin milli nýrrar ríkisstjórnar  í Þýskalandi og tiltölulega nýrrar á Íslandi.  Ánægjulegt var einnig að sjá að tveir „Íslandsvinir“ eru í hóp 33 aðstoðarráðherra , þeir Michael Roth, Evrópuráðherra í utanríkisráðuneyti og Uwe Beckmeyer, Staatssekretaer í viðskiptaráðuneyti.  Hinn fyrrnefndi  var talsmaður SPD í evrópumálum og í umræðu um aðild Íslands í Bundestag á sínum tíma og hefur sótt Ísland heim tvívegis.  Hinn síðarnefndi er formaður Íslandsvinafélagsins í Bremen/Bremerhaven.

Gunnar Snorri Gunnarsson er sendiherra í Berlín

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics