Hoppa yfir valmynd

Samkomubann

SVandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar: 

Í lok síðustu viku kynnti ég ákvörðun mína um að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur í fjórar vikur, frá og með 16. mars. Tilgangurinn er að hefta útbreiðslu COVID19-sjúkdómsins, verja heilsu fólks og viðhalda starfsgetu heilbrigðiskerfisins meðan á faraldri stendur og er ákvörðunin tekin að tillögu sóttvarnarlæknis. Samhliða samkomubanni verður skólahald takmarkað í fjórar vikur. Þetta er mikilvæg sóttvarnaraðgerð sem allur almenningur þarf að hlíta og vera meðvitaður um. Á vefsíðunni covid.is er hægt að finna góðar upplýsingar um COVID19, samkomubannið, nýjustu fréttir, svör við algengum spurningum o.fl.

Með samkomubanni er átt við skipulagða viðburði þar sem fleiri en 100 manns koma saman og verða þeir óheimilir. Við öll mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli manna sé að minnsta kosti yfir tveir metrar og að aðgengi að handþvotti og handspritti sé gott. Háskóla- og framhaldsskólakennslu verður sinnt með fjarkennslu og í grunnskólum skal tryggja að ekki séu fleiri en 20 nemendur í kennslunni sömu stofu. Tryggja skal að börn í leikskólum séu í eins litlum hópum og mögulegt er.

Fram til þessa höfðu viðbrögð á Íslandi beinst að fljótri greiningu einstaklinga, rakningu smita, einangrun sýktra og sóttkví þeirra sem grunaðir eru um smit. Má telja líklegt að þessar ráðstafanir hafi komið í veg fyrir fjölmörg innlend smit. Margvíslegar aðrar ráðstafanir hafa verið gerðar með leiðbeiningum og upplýsingagjöf til almennings, stofnana og fyrirtækja til að sporna við útbreiðslu veirunnar og sérstök áhersla hefur verið lögð á að vernda viðkvæma hópa og verður svo áfram. Nú hefur samkomubann og takmörkun á skólahaldi verið sett á, með það að markmiði að hefta útbreiðslu veirunnar enn frekar.

Mat sóttvarnarlæknis var að nú væri rétti tíminn til að ráðast í aðgerðir sem þessar, í ljósi þess að smitum á Íslandi fjölgar dag frá degi og svokölluðum þriðja stigs smitum einnig. Þá eru dæmi um smit sem ekki hefur tekist að rekja til utanferða annarra einstaklinga. Að mati sóttvarnarlæknis gefi þetta vísbendingu um að COVID-19 geti nú farið að smitast hraðar milli fólks en hingað til. Á sama tíma sé hópur starfsmanna Landspítala í sóttkví og gæti frekari útbreiðsla faraldursins dregið úr getu spítalans til að sinna hlutverki sínu.

Nú er það verkefni okkar allra að fylgja fyrirmælunum og hjálpast að. Verkefnið er stórt og krefjandi en ég er sannfærð um að við komumst í gegnum þetta saman. Gangi öllum sem best sem eru að glíma við stórar breytingar á sínum högum og daglegu lífi.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 17. mars 2020.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics

This website uses cookies to ensure you get the best experience on our website. Read more