Hoppa yfir valmynd

Eining er undirstaða NATO-samstarfsins

Eining er undirstaða NATO-samstarfsins - myndAtlantshafsbandalagið

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræddu samskiptin við Rússland, ástandið í Sýrlandi, stuðning við Írak og Afganistan auk stækkunarstefnu bandalagsins á fundi sínum sem lauk nú síðdegis í Brussel.

Hernaðarumsvif og afskipti Rússlands af innanríkismálum fjölmargra bandalagsríkja voru til umræðu á fundinum. Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi þessa að standa vörð um alþjóðalög með því að sýna festu í samskiptum við rússnesk stjórnvöld en halda samskiptaleiðum opnum.

"Því miður virðast rússnesk stjórnvöld í auknum mæli vera að snúa baki við alþjóðakerfinu og reglum þess sem þeir tóku sjálfir virkan þátt í þróa. Styrkur Atlantshafsbandalagsins felst í órofa samstöðu þegar kemur að því að mæta slíkum áskorunum og standa vörð um alþjóðalög. Eining meðal NATO-ríkja er undirstaða samstarfsins," sagði Guðlaugur Þór Þórðarson sem sótti fundinn af Íslands hálfu.


Nýskipaður utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Michael Pompeo mætti til fundarins, aðeins örfáum klukkustundum eftir að hafa tekið við embætti. "Ég tel það undirstrika mikilvægi NATO-samstarfsins fyrir Bandaríkin að Pompeo skyldi koma rakleiðis á fund NATO-ríkjanna og árétta þar sterk skilaboð Bandaríkjamanna um samstöðu innan Atlantshafsbandalagsins."

Aukinn stuðningur við samstarfsríki bandalagsins, þ.m.t Írak, Jórdaníu og Túnis, var til umfjöllunar á fundinum en stuðningur bandalagsins gerir þessum ríkjum betur kleift að standa vörð um eigið öryggi og stuðla þannig að stöðugleika í nágrenni bandalagsins. Einnig var rætt um áframhaldandi stuðning við Afganistan, mikilvægi umbótastarfs stjórnvalda og stöðu friðarferlisins sem Afganar leiða. Ráðherrarnir ræddu stöðu umsóknarríkjanna Bosníu-Hersegóvníu, Georgíu og Makedóníu og mikilvægi þess að bandalagið héldi áfram að styðja við umbætur í þessum ríkjum.

Utanríkisráðherra átti einnig tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Búlgaríu, Danmerkur og Ungverjalands.

Fundurinn var síðasti ráðherrafundurinn í núverandi höfuðstöðvum bandalagsins sem teknar voru í notkun árið 1967 sem bráðabirgðahúsnæði. Verða nýjar höfuðstöðvar teknar í notkun á næstu vikum. Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins sleit þessum síðasta fundi í gömlu höfuðstöðvunum með fundarhamri sem Íslendingar færðu bandalaginu að gjöf á sjöunda áratug síðustu aldar.


“Það var söguleg stund þegar framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins sló botninn í fundinn á þessum stað sem segja má að hafi verið vettvangur kalda stríðsins og við segjum nú skilið við. Og það var auðvitað ánægjulegt að hann skyldi nota til þess fundarhamar sem við Íslendingar gáfum bandalaginu fyrir um hálfri öld,” sagði Guðlaugur Þór.

Tags

16. Friður og réttlæti

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics