Hoppa yfir valmynd

Ráðherra afhendir spítala til Malaví

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra afhendir spítala til Malaví
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra afhendir spítala til Malaví

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra afhenti í dag fullbúið sjúkrahús til Malavístjórnar. Sjúkrahúsið hefur verið byggt fyrir þróunarfé frá Íslandi og þjónar 125.000 manna svæði. Verkefnið er stærsta einstaka verkefni Íslands í þróunarsamvinnu og hefur staðið frá árinu 2000.

Utanríkisráðherra lýsti því yfir að Ísland myndi áfram styðja verkefni til þess að tryggja íbúum svæðisins hreint vatn en fyrir tilstuðlan Íslendinga hefur kóleru verið útrýmt á því svæði þar sem settir hafa verið upp vatnsbrunnar. Fyrir árið 2008 braust kólera þar út 1-200 sinnum á ári en eftir það, þegar Íslandsverkefnið var komið á fullt skrið, hefur ekki eitt einasta tilvik af kóleru fundist.

Afhendingin fór fram við hátíðlega athöfn í bænum Monkey Bay í Malaví í dag. Forsetafrú Malaví, frú Callista Mutharika, veitti spítalanum móttöku en við athöfnina voru einnig ráðherrar og þingmenn, æðstu embættismenn og héraðshöfðingjar. 

Í ræðu sinni við athöfnina þakkaði ráðherra Malaví fyrir 23 ára þróunarsamvinnu og hét því að Íslendingar myndu áfram styðja vel við fátæka íbúa landsins. Hann kynnti væntanlega fjögurra ára áætlun um aukin framlög til heilbrigðis- og menntaverkefna í Mangochi héraði og til vatns- og hreinlætismála.

Mikill mannfjöldi fagnaði við afhendinguna enda hefur sjúkrahúsið haft í för með sér byltingu fyrir heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Á spítalanum er göngudeild, skurðdeild og fæðingardeild og hefur mæðradauði og barnadauði minnkað mjög fyrir tilverknað íslensku þróunarverkefnanna.

Bygging sjúkrahússins hófst árið 2000 og hafa íslenskir ráðgjafar verið héraðsstjórninni til ráðgjafar um byggingu þess og rekstur, meðal annars fyrrverandi og núverandi landlæknir Íslands.

Utanríkisráðherra hefur verið á ferð um Malaví síðustu daga og kynnt sér verkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands en með honum í för er  Engilbert Guðmundsson framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar. Ráðherra heimsótti heilsugæslustöð í Nankumba héraði þar sem hægt er að veita lágmarks heilbrigðisþjónustu, gefa lyf vegna berkla og alnæmis og þar er einnig fæðingardeild. Þar fæðast að meðaltali þrjú börn á dag í sveitum þar sem langt er í næsta sjúkrahús. Einnig skoðaði ráðherra vatnsverkefni þar sem heimamönnum hefur verið hjálpað við byggingu brunna og fá þar með aðgang að hreinu vatni sem er lykillinn að því að stemma stigu við útbreiðslu sjúkdóma.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics