Hoppa yfir valmynd

Ingibjörg Sólrún skipuð framkvæmdastjóri ODIHR

Ingibjörg Sólrún - myndStefán Karlsson
Fastaráð Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, samþykkti í dag með formlegum hætti að skipa Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem næsta framkvæmdastjóra Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE, ODIHR, sem hefur aðsetur í Varsjá. Skipunin er til þriggja ára og tekur Ingibjörg til starfa undir lok vikunnar.
„Þetta er fagnaðarefni enda um eina af áhrifamestu stöðum sem Íslendingur hefur gegnt á alþjóðavettvangi. Ingibjörg Sólrún er mjög vel að þessu komin, hún hefur til að bera þá þekkingu og reynslu sem þarf til að stýra þessari mikilvægu stofnun á erfiðum tímum í alþjóðamálum. Skipun hennar brýnir okkur jafnframt til góðra verka því hún beinir athyglinni að Íslandi og þeim gildum sem íslensk þjóð og okkar utanríkisstefna stendur fyrir - lýðræði, mannréttindi og jafnrétti,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Utanríkisráðuneytið hefur stutt við framboð Ingibjargar Sólrúnar, en hún atti kappi við frambjóðendur frá Svíþjóð og Serbíu. Skipun hennar er hluti skipunar í fjórar æðstu stöður ÖSE, þar með talinn framkvæmdastjóra stofnunarinnar en samkomulag náðist á óformlegum utanríkisráðherrafundi ÖSE í síðustu viku.
„ODIHR stendur vörð um lýðræði og mannréttindi og er eitt mikilvægasta tækið sem ríki Evrópu, Mið-Asíu og Norður-Ameríku eiga til þess. Þetta er vissulega mikil áskorun en einnig einstakt tækifæri til að vinna þessum gildum brautargengi og ég er þakklát þeim stuðningi sem ég og mitt framboð í nafni Íslands hefur hlotið", segir Ingibjörg Sólrún, en samstöðu 57 aðildarríkja ÖSE þurfti til að hljóta stöðuna.
ODIHR er stærsta undirstofnun ÖSE með um 150 manna starfslið en á meðal helstu verkefna hennar er kosningaeftirlit í aðildarríkjum ÖSE, úttektir á lagasetningu, verkefni og þjálfun á sviði mannréttinda, jafnréttis, lýðræðislegra stjórnarhátta og baráttunnar gegn hatursglæpum.
Sjá nánar á vefsíðu ODIHR.

Tags

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Heimsmarkmiðin

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics