Hoppa yfir valmynd

Leggja áherslu á samstöðu Norðurlanda

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra átti símafund með utanríkisráðherrum Norðurlandanna. - mynd

Utanríkisráðherrar Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar leggja áherslu á samstöðu Norðurlanda og samstarf þeirra andspænis þeim miklu áskorunum sem ríki heims standa frammi fyrir nú vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Ráðherrarnir fimm áttu símafund í gær og voru sammála um mikilvægi þess að Norðurlöndin standi þétt saman á þessum óvissutímum.

„Við horfum upp á landamæri ríkja lokast, hver á fætur öðrum. Við þessar aðstæður er mikilvægt að árétta gildi þessa einstaka sambands Norðurlandanna og að norrænt samstarf standi sterkt hér eftir sem hingað til,” segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sem tók þátt í fundinum fyrir Íslands hönd með þeim Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur og Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, auk Auduns Halvorsen, ráðuneytisstjóra norska utanríkisráðuneytisins, og Jóhönnu Sumuvuori, ráðuneytisstjóra finnska utanríkisráðuneytisins.

Ráðherrarnir fimm voru á einu máli um að hvetja ferðaskrifstofur og aðra í ferðaþjónustu til að leggja áfram sitt af mörkum til að umbjóðendur þeirra kæmust til síns heima. Þá telja þeir brýnt að ríkisborgurum Norðurlandanna verði gert kleift að fara hindranalaust um flugvelli norrænu ríkjanna svo þeir komist til heimalanda sinna. Ennfremur verði áfram tryggt að ríkisborgarar Norðurlandanna geti notið borgaraþjónustu hvers annars ef þurfa þykir. Þá verði ríkisborgurum Norðurlandanna fimm veitt sérstök hjálparhönd á grundvelli Evrópusamvinnunnar, ef nauðsyn krefur.

Norrænu ráðherrarnir áttu jafnframt sameiginlegan fund með utanríkisráðherrum Eistlands, Lettlands og Litáens. Þar var einnig lögð áhersla á samstarf um borgaraþjónustu, um ferðir borgara ESB- og EES-ríkjanna um ríkin átta í þeim tilgangi að komast til síns heima og að veita sérstaka mannúðaraðstoð ef nauðsyn krefði. Loks var undirstrikað mikilvægi þess að vinna að því að áhrif á efnahagslíf yrði sem minnst og að tryggt yrði að mörkuðum verði haldið opnum og vöruflutningar milli landa tryggðir.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics