Hoppa yfir valmynd

80% hækkun launa í evrum talið frá 2013-2017

Laun á Íslandi hækkuðu um 80% í evrum talið á tímabilinu 2013-2017 sé tekið mið af tölum Eurostat um launakostnað á vinnustund innan viðskiptahagkerfisins. Styrking krónunnar olli miklum vexti í kaupmætti í erlendri mynt á sama tíma og laun hækkuðu mikið. Hvergi í Evrópu hækkuðu laun jafn mikið á þennan mælikvarða á undanförnum árum. Hátt launastig hér á landi í alþjóðlegum samanburði endurspeglar sterka stöðu þjóðarbúsins og hátt raungengi sem er ein helsta ástæða þess að verðlag hér á landi er hátt þegar það er borið saman við önnur lönd.

Verðlag á Íslandi var 66% hærra en að meðaltali í löndum ESB árið 2017 samkvæmt rannsókn evrópsku hagstofunnar Eurostat sem hefur verið í umræðunni að undanförnu. Í þeim samanburði er verðlag í krónum umreiknað í verðlag í evrum og því hafa gengisbreytingar mikil áhrif á samanburðinn. Þegar krónan styrkist verða vörur sem verðlagðar eru í íslenskum krónum dýrari í evrum talið og því hækkar verðlag sjálfkrafa á þennan samræmda mælikvarða. Styrking krónunnar á árunum 2013-2017 hefur aftur á móti stuðlað að lægra vöruverði hér á landi í íslenskum krónum og þannig aukið kaupmátt heimilanna. Afnám tolla og vörugjalda hefur stuðlað enn frekar að lægra vöruverði í mikilvægum vöruflokkum eins og komist er að í skýrslu Hagfræðistofnunar.

 

 

Sterkt raungengi krónunnar í sögulegu samhengi endurspeglar ekki síst viðsnúning í viðskiptajöfnuði á undanförnum árum og sterka stöðu þjóðarbúsins. Laun hafa enda hækkað meira en verðlag eins og sést á meðfylgjandi mynd. Árið 2017 var launakostnaður á hverja vinnustund í evrum talið 74% hærri á Íslandi en að meðaltali í löndum ESB.

 

Þrátt fyrir hátt verðlag hér á landi er velsæld hér á landi því mikil í alþjóðlegum samanburði sem endurspeglast meðal annars í tölum um neyslu. Ísland var í sjötta sæti meðal Evrópuríkja í tölum Eurostat um einstaklingsbundna neyslu á mann árið 2017 og í öðru sæti meðal Norðurlandanna á eftir Noregi.

 

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics