Hoppa yfir valmynd

Samstarf Íslands og Afríkulanda í orkumálum

Ráðstefna um þróun vistvænnar orku í Afríku og um samstarf Íslands og Afríkulanda í orkumálum er haldin í dag í höfuðstöðvum Afríkusambandsins í Addis Ababa. Er ráðstefnan til marks um aukinn áhuga sambandsins á samstarfi við Ísland.

Aðalræðumaður var dr. Guðni Jóhannesson orkumálastjóri. Í upphafi ráðstefnunnar töluðu einnig Alemayehu Tegenu námu- og orkumálaráðherra Eþíópíu, Dr. Elham M.A. Ibrahim frá Egyptalandi sem er orkustjóri Afríkusambandsins og Svavar Gestsson, sendiherra, sérstakur fulltrúi utanríkisráðherra gagnvart Afríkusambandinu.

Ráðstefnan var vel sótt en mikill áhugi er í Afríku á samstarfi við Ísland í orkumálum. Þetta á ekki síst við vegna Djibútíverkefnisins svokallaða, byggingu 50 megavatta jarðhitavirkjunar, en þar koma íslenskir aðilar við sögu.

Í ávarpi sínu fjallaði Guðni um stöðu orkumála í heiminum og möguleikana á þróun vistvænnar orku, ekki síst í Afríku. Svavar Gestsson sendiherra þakkaði forseta Afríkusambandsins Jean Ping sérstaklega fyrir forystu hans í þessu samstarfi við Ísland en hingað til hefur áhugi einstakra Afríkuríkja beinst að Íslandi en sambandið sem heild hefur ekki áður komið að málum með þessum hætti.

Afríkusambandið hefur aðalstöðvar í Addis Ababa og er samtök allra Afríkuríkja.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics