Hoppa yfir valmynd

Ráðherrafundur EFTA í Genf

EFTA ráðherrar ásamt viðskiptaráðherra Indlands og framkvæmdastjóra EFTA
EFTA ráðherrar ásamt viðskiptaráðherra Indlands og framkvæmdastjóra EFTA

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 088

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, sat í dag ráðherrafund EFTA-ríkjanna í Genf í Sviss. Fundinn sóttu ráðherrar allra EFTA-ríkjanna. Fríverslunarsamningar EFTA ríkjanna og aukin samskipti við önnur ríki voru meginefni ráðherrafundarins.

Í tengslum við ráðherrafundinn áttu EFTA ráðherrarnir fund með Kamal Nath, viðskiptaráðherra Indlands, og undirrituðu samkomulag um sameiginlega hagkvæmnikönnun vegna mögulegs fríverslunarsamnings milli ríkjanna. Indland er í hópi mikilvægustu viðskiptaþjóða heims og því mikill akkur í þessum áfanga fyrir EFTA ríkin sem vonast til þess að fríverslunarsamningur komist á hið fyrsta. Hið nýja sendiráð Íslands í Nýju Delhi hefur ásamt sendiráðum hinna EFTA ríkjanna þar gegnt mikilvægu hlutverki í undirbúningi þessa máls.

Ráðherrarnir ræddu stöðuna í Doha-viðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og hver áhrif gætu orðið á fríverslunarsamstarf EFTA ríkjanna. Síðustu vikurnar hafa komið fram sterkar vísbendingar um að aðildarríki WTO hyggist reyna til þrautar að ná samningum næsta vor. Ráðherrarnir fögnuðu því og ítrekuðu mikilvægi alþjóðaviðskiptakerfsins fyrir efnhahag og afkomu almennings í öllum ríkjum heims. Ljóst er að tímabundin frestun samningaviðræðna nú í haust jók áhuga flestra þjóða á gerð fríverslunarsamninga og felur það í sér áskoranir og tækifæri fyrir EFTA ríkin.

Ráðherrarnir fögnuðu gildistöku fríverslunarsamninga EFTA við Suður-Kóreu annars vegar og Líbanon hins vegar og fyrirsjáanlegri gildistöku fríverslunarsamningsins við Tollabandalag Suður-Afríkuríkja. Jafnframt fögnuðu ráðherrarnir því að loks hefði tekist að ljúka samningaviðræðum við Egyptaland og að viðræður við Kanada væru komnar aftur af stað og að flest benti til að þeim gæti lokið innan fárra vikna. Ráðherrarnir ræddu stöðu samningaviðræðna EFTA við aðildarríki Flóaráðsins annars vegar og við Tæland hins vegar og vonuðust til að báðum þessum viðræðum gæti lokið á næsta ári. Þá ræddu ráðherrarnir möguleika á samstarfi við önnur ríki og bar þar hæst Alsír, Indónesíu, Japan, Kína, Úkraínu, Rússland, Perú og Kólumbíu.

Utanríkisráðherra sat einnig í dag sameiginlegan fund ráðherra EFTA-ríkjanna og þingmannanefndar EFTA þar sem fram fóru skoðanaskipti um EFTA samstarfið.

Fréttatilkynning ráðherrafundarins (pdf 39,0 KB)



EFTA ráðherrar ásamt viðskiptaráðherra Indlands og framkvæmdastjóra EFTA
EFTA ráðherrar ásamt viðskiptaráðherra Indlands og framkvæmdastjóra EFTA

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics