Hoppa yfir valmynd

Rekstur norrænna fyrirtækja auðveldaður með aukinni samtengingu stafrænna kerfa

Á dögunum samþykktu atvinnuvegaráðherrar Norðurlanda áætlun sem m.a. felur í sér áframhaldandi stuðning við Nordic Smart Government – umfangsmikið samstarfsverkefni sem ætlað er að auðvelda rekstur fyrirtækja þvert á Norðurlöndin með aukinni samtengingu stafrænna kerfa. Skatturinn stýrir vinnu íslenska landsteymisins við verkefnið, en vinna við það hófst 2016.

Nordic Smart Government vinnur að brautargengi metnaðarmáls norrænu forsætisráðherranna um að Norðurlönd verði samþættasta landsvæði í heiminum. Verkefnið miðar að því að gera fyrirtækjum og stofnunum kleift að miðla og sækja viðskipta- og bókhaldsgögn á sjálfvirkan og öruggan hátt í því sem næst rauntíma. Fyrir liggur vegvísir sem varðar þá leið til næstu ára.

Margþættur ávinningur af aðgengilegum viðskiptagögnum

Ávinningurinn af því að gera viðskiptagögn aðgengileg fyrirtækjum og stofnunum á sjálfvirkan og öruggan hátt í rauntíma er mikill. Mestur er ávinningurinn í tengslum við sjálfvirkt flæði gagna, til dæmis í bókhaldi og skýrslugerð, sem gerir fyrirtækjum kleift að hagræða í rekstri og auðveldar þeim fjárhags- og birgðastýringu. Þá styður aðgengi að uppfærðum viðskiptagögnum við nýsköpun á sviði stafrænnar þjónustu og auðveldar lánastofnunum sem og tryggingafélögum að vinna lánshæfis- og áhættumat og fyrirtækjum þar með alla fjármögnun, einkum smærri fyrirtækjum. 

Einnig má nefna að stjórnsýsluálag á lítil og meðalstór fyrirtæki minnkar sem og álag vegna umsýslu, auk þess sem tími sparast með sjálfvirku bókhaldi og skýrslugerð. Gagnsæi eykst í opinberri stjórnsýslu og viðskiptalífi sem eykur traust, viðskipti milli Norðurlandanna verða einfaldari með samræmdum stöðlum og samkeppni verður virkari. Þá eru áhrif á umhverfið jákvæð þar sem dregur úr pappírsnotkun.

Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja og Litla Ísland, fagna Nordic Smart Government og telja stafrænu úrræðin sem þar eru kynnt tímabær. Þau hvetja því eindregið til þess að verkefnið hljóti skjóta framgöngu.

Í byrjun árs 2021 hefst fjórði áfangi verkefnisins en hann felur í sér innleiðingu breytinga. Ásamt Skattinum hafa fulltrúar úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Hagstofu Íslands tekið þátt í vinnunni til þessa.

Nánar um Nordic Smart Government

Hugmyndin er að gera viðskiptaferla við kaup og sölu á vöru og þjónustu sjálfvirka með aðstoð stafrænnar tækni þannig að upplýsingar í keðjunni frá birgjum til fyrirtækja og frá fyrirtækjum til viðskiptavina ferðist með stafrænum hætti, bæði í viðskiptum innanlands og á milli Norðurlandanna.

Gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki geymi sín viðskiptagögn í eigin viðskiptakerfum og deili þaðan upplýsingum með stjórnvöldum og öðrum hagaðilum eftir því sem við á, t.a.m. bönkum, tryggingafélögum, endurskoðunarfyrirtækjum og öðrum þjónustuaðilum. Hverju fyrirtæki verður í sjálfsvald sett hvort og þá hvaða gögnum það deilir og með hverjum.

Til að raungera þessa sýn þurfa pantanir, reikningar og kvittanir fyrirtækja og stofnana að vera hvoru tveggja í senn á stafrænu og stöðluðu formi. Stöðlun skiptir höfuðmáli því gögn á stöðluðu formi eru forsenda þess að hægt sé að vinna verk með stafrænum og sem mest sjálfvirkum hætti. Í slíkum tilvikum hentar hvorki að gögn séu á PDF formi né á pappír.


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics