Hoppa yfir valmynd

Fagna því að stjórnarandstöðuöflin hafi sameinast

Á fundi „Vina Sýrlands“ sem haldinn var í Marrakesh í Marokkó í dag lýstu Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin ánægju sinni með að stjórnarandstöðuöflunum í Sýrlandi skuli hafa tekist að stilla saman strengi sína og sameinast. Segir í sameiginlegri yfirlýsingu ríkjanna átta að þau líti á hina nýju samfylkingu stjórnarandstöðuaflanna sem réttmæta fulltrúa Sýrlendinga og lýsa þau sig tilbúin til að styðja hana á pólitískri vegferð sinni. M.a. er lagt að stjórnarandstöðunni að halda í heiðri hugsjónir lýðræðis og mannréttinda og að áfram verði haldið áfram að vinna að því að tryggja sem víðtækastan stuðning við forystu hennar. Sérstaklega mikilvægt sé að stjórnarandstaðan og þau vopnuðu samtök sem tengjast henni virði alþjóða mannúðarlög um framgöngu í hernaðarátökum. Alvarleg mannréttindabrot verði ekki umborin, hver svo sem þau fremur, og draga verði til ábyrgðar alla þá sem gera sig seka um slíka glæpi.

Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin lýsa áhyggjum sínum yfir viðvarandi átökum í Sýrlandi með tilheyrandi mannfalli og hörmungarástandi. Ef ekki verði hægt að skakka leikinn sé hætta á að ástandið breiðist út til nágrannalandanna. Þau ítreka fordæmingu sína á framgöngu ríkisstjórnar Bashars al-Assads, þ.m.t. meinta notkun klasasprengja og loftárása, og lögð er áhersla á að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna móti sameiginlega afstöðu til að auka þrýstinginn á ráðamenn í Damaskus. Senda verði sýrlenskum stjórnvöldum skýr skilaboð um að morð þeirra á eigin borgurum verði ekki umborin. Ennfremur lýstu Norðurlöndin og Eystrasaltsþjóðirnar yfir eindregnum stuðningi við Lakhdar Brahimi, sérlegan sendimann Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins, og viðleitni hans til að finna pólitíska lausn á átökunum í Sýrlandi.

Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, flutti sameiginlega ræðu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á fundinum í Marrakesh en þetta er í fjórða sinn sem „Vinir Sýrlands“ koma saman með þessum hætti.

Yfirlýsing Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna (á ensku)

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics