Hoppa yfir valmynd

Vel heppnað sumarverkefni fyrir börn í viðkvæmri stöðu

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, ákvað að styðja fjárhagslega við þau sveitarfélög sem töldu þörf á að auka við frístundarstarfsemi barna í viðkvæmri stöðu í sumar, umfram hefðbundið sumarstarf. Alls sóttu 30 sveitarfélög um styrk og fengu þau öll samþykkta úthlutun og var samþykkt að 75 milljónum króna til verkefnisins á landsvísu. Aðgerðirnar eru hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19, sem er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í samfélaginu.

Sérstaklega var horft til aldurshópsins 12 til 16 ára, og áhersla lögð á að ná til þess hóps barna sem hvað síst sækja hefðbundið frístundarstarf. Líkur voru taldar á að 12-16 ára börn væru í hvað minnstri virkni yfir sumartímann og því í aukinni áhættu hvað varðar til dæmis áhættuhegðun eða kvíða.

Við útdeilingu fjármagns var hlutfallslegur fjöldi barna á aldrinum 12 til 16 ára í hverju sveitarfélagi hafður til viðmiðunar. Umsóknirnar voru af ýmsum toga enda stærð sveitarfélaganna mjög mismunandi og áskoranir á tímum Covid-19 hvað tómstundastarf barna varðar fjölbreyttar.

Nokkur minnstu sveitarfélaganna fengu kr. 100.000 í sinn hlut en skorti ekki hugarflug til að nýta þá fjárhæð í þágu barna og ungmenna. Til að mynda var fjárfest í spilum eða tölvubúnaði til að auka við fjölbreytni í tómstundastarfi og ná betur til þeirra ungmenna sem hvað síst sækja hefðbundið tómstundastarf. Einn minni hreppanna nýtti styrkinn til að bjóða börnum 12 til 16 ára upp á upplifun innan sveitar og kynna þeim nærumhverfið, þar sem þau fóru þau meðal annars í útsýnisflug hellaferð. Þannig fengu þau að upplifa afþreyingu í nærumhverfi sínu sem þau höfðu ekki upplifað áður.

Verkefni stærri sveitarfélagann voru einnig af fjölbreyttum toga. Sem dæmi má nefna stofnun rafíþróttaklúbba til að rjúfa einangrun barna inn á heimilum og nýta tækifærið til að koma að fræðslu um heilbrigðari tölvunotkun og lífshætti, félagsmiðstöðvar, sem venjulega loka yfir sumarið, héldu dyrum sínum opnum yfir sumartíman, boðið var upp á sjálfstyrkingar og kvíðanámsleið undir handleiðslu fagaðila og sumarúrræði voru víða niðurgreidd til að gefa börnum úr efnaminni fjölskyldum kost á þátttöku.

Þeim sveitarfélögum sem fengu úthlutað fjármagni til sumarverkefna er ætlað að skila stuttri skýrslu um framvindu verkefna og árangur til félagsmálaráðuneytisins fyrir 1. október 2020.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Það var frábært að sjá hvað sveitarfélögin tóku ákveðið utan um þetta verkefni og buðu börnum og unglingum, sem eru í viðkvæmri stöðu, upp á fjölbreytt og skemmtilegt starf í sumar. Við vitum að þau börn og unglingar sem halda ekki mikilli virkni yfir sumartímann eru líklegri til þess að sæta vanrækslu, félagslegri útilokun, neyta fíkniefna eða verða fyrir ofbeldi vegna þeirra áhrifa sem Covid-19 faraldurinn hefur haft á daglegt líf, og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við stígum þar inn og tökum betur utan um þessa hópa.”

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics