Hoppa yfir valmynd

Íslensk hönnun á Turku Design Week í Finnlandi

Íslenski básinn í Turku
Íslenski básinn í Turku

Sendiráð Íslands í Helsinki tók þátt í Turku Design Week sem fram fór síðustu vikuna í mars. Vikunni lauk með viðburðinum “Mässan för konst- och antikintresserade,” dagana 31. mars og 1. apríl í kaupstefnuhöllinni í Turku, sem er Íslendingum að góðu kunn fyrir vinsælar bókakaupstefnur sínar. Sendiráðið tók þátt í þeim viðburði með aðstoð utanríkisráðuneytisins og Hönnunarmiðstöðvar Íslands. Á sama tíma fór fram handverkssýning í kaupstefnuhöllinni og lögðu rúmlega 10.000 manns leið sína á sýningarnar.

Kaupstefnuhöllin í Turku bauð sendiráði Íslands í Helsinki ókeypis sýningaraðstöðu báða dagana og lagði einnig til alla umgjörð, s.s. veggeiningar, teppi, skyggni og lýsingu. en viðburðurinn var auk þess styrktur af Icelandair. Sett var upp ljósmyndasýning um íslenska hönnun (Design in Iceland), sýndir voru hönnunarmunir úr sýningunni "Íslensk samtímahönnun” og Fuzzy kollum, sem sendiráðið festi kaup á í fyrra, var stillt upp á sýningarbásnum.

Auk sýningarbássins bauð kaupstefnuhöllin sendiráðinu 30 mínútur til afnota fyrir munnlega kynningu á sviði báða dagana. Sendiráðið fékk Finnann Sari Peltonen til liðs við sig en hún vinnur að ýmsum verkefnum fyrir Hönnunarmiðstöð Íslands og er búsett á Íslandi. Sari hélt tvo fyrirlestra á finnsku um íslenska hönnun.

Helsinki var valin hönnunarhöfuðborg heimsins árið 2012 og af því tilefni var sendiráð Íslands í Helsinki útnefnt “hönnunarsendiráð.” Sérstök áhersla er lögð á hönnunartengda viðburði í menningarstarfi sendiráðsins í ár, jafnt í Helsinki sem og annars staðar í Finnlandi, og var Turku Design Week liður í því starfi.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics