Hoppa yfir valmynd

Hugað að geðheilsunni á tímum C0VID-19

Ljóst er orðið að COVID-19 faraldurinn mun hafa gríðarleg áhrif á almannaheill og efnahag fólks um heim allan. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varar við neikvæðum áhrifum faraldursins og þeirri efnahagslegu kreppu sem honum mun fylgja á geðheilsu almennings og hvetur til aðgerða. Heilbrigðisráðuneytið hefur tekið saman yfirlit um það helsta af upplýsingum, leiðbeiningum og úrræðum sem almenningi stendur til boða, eins og nánar er greint frá hér. Heilbrigðisráðherra gerði grein fyrir þessu efni á fundi ríkisstjórnar í gær.

„Líðan okkar“ – Hagnýtar upplýsingar á vefsíðunni COVID.IS

Áríðandi er fyrir almenning að hafa greiðan aðgang að upplýsingum um úrræði og önnur bjargráð sem snúa að geðheilsu. Til að mæta þessu hafa verið teknar saman upplýsingar á vefnum www.covid.is undir yfirskriftinni Líðan okkar þar sem hægt er að nálgast á einum stað leiðbeiningar og vísanir á úrræði fyrir almenning og hópa sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda.

Heilræði fyrir alla: „Heilræði á tímum kórónuveiru“ ættu að gagnast öllum. Þau eru gefin út af embætti landlæknis og byggjast á niðurstöðum rannsókna á því hvað gagnlegt er að gera til að hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Heilræðin hafa verið birt sem auglýsingar á íslensku, ensku og pólsku og kynnt með myndböndum í samvinnu við RÚV.

Til foreldra: Á vefsvæðinu er vísað á ýmis góð ráð til foreldra sem embætti landlæknis, heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið hafa tekið saman vegna COVID-19 faraldursins.

Geðheilbrigðisþjónusta um allt land: Á vefsvæðinu eru upplýsingar og tenglar frá öllum heilbrigðisumdæmum um hvernig megi nálgast geðheilbrigðisþjónustu og þau sérstöku átaksverkefni sem víða hafa verið sett af stað, svo sem sérstaka símatíma við sálfræðinga til að ræða uppbyggilegar leiðir til að efla líðan og geðheilsu á þessum krefjandi tímum. Einnig er þarna að finna upplýsingar um jafningjaþjónustu félagasamtaka fólks með eigin reynslu af geðheilbrigðisvanda.

Geðráði komið á fót – vikulegir fundir

Stjórnvöld leggja áherslu á sterk tengsl við fulltrúa félagasamtaka fólks með reynslu af geðrænum vanda með reglubundnum samráðsfundum félagasamtaka, fulltrúum þjónustuveitenda, heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis og verður einn slíkur fundur haldinn nú í apríl. Til að bregðast sérstaklega við aðstæðum tengdum COVID-19 hefur verið sett á fót tímabundið geðráð sem hefur það hlutverk að hnýta markvisst saman aðgerðir og tryggja samhæfða upplýsingagjöf til viðkvæmra hópa nú á tímum heimsfaraldurs. Geðráðið er aðgerðamiðað og fundar nú vikulega.

Aðgerðir í heilbrigðisþjónustu fyrir fólk sem glímir við neyslu- og fíknivanda
Gerðar hafa verið breytingar á starfsemi og þjónustu fíknigeðdeilda og geðdeilda Landspítala vegna COVID-19. Lögð er áhersla á að legudeild sé ekki yfirfull og svigrúm til að setja sjúklinga í sóttkví ef þarf. Þjónusta vegna bráðra mála hefur verið endurskipulögð með áherslu á að koma þeim sem hraðast í viðeigandi farveg. Símaviðtalsþjónusta hefur verið stóraukin til að draga úr smithættu.

Sjúkrahúsið á Akureyri hefur sinnt bráðaþjónustu og göngudeildarþjónustu fyrir fólk með vímuefnavanda og alvarlegar geðraskanir. Reynt hefur verið að draga úr komum á göngudeild með því að bjóða símaviðtöl.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ásamt heilbrigðisstofnunum landsins hefur lagt áherslu á að mæta þessum hópi með auknum símaviðtölum.

SÁÁ hefur lagt sig fram við að halda úti þeirri þjónustu sem mögulegt er í COVID-19 faraldri og rúmast innan leiðbeininga frá almannavörnum. Starfsemi á sjúkrahúsinu Vogi og Vík er eins og áður en færri rými eru notuð. Göngudeildir eru nú alfarið komnar í samskipti við sjúklinga í gegnum síma og fjarþjónustuviðtöl.

Geðheilsuteymi fyrir fanga

Fangelsið Hólmsheiði.Með stofnun geðheilsuteymis fyrir fanga í desember 2019 var tekið stórt skref í þá átt að færa geðheilbrigðisþjónustu í íslenskum fangelsum til þess sem best þekkist. Vel hefur gengið að byggja upp þjónustu teymisins sem er afar mikilvægt, m.a. í ljósi margvíslegs álags, streitu og vanlíðunar sem óhjákvæmilega fylgir COVID-19 faraldrinum og sá viðkvæmi hópur einstaklinga sem þarf að sæta fangelsisvist fer ekki varhluta af. Geðheilsuteymið sinnir öllum fangelsum landsins og er afrakstur metnaðarfullrar samvinnu heilbrigðis- og dómsmálaráðuneyta. Teymið er sérhæft, þverfaglegt geðheilsuteymi sem starfar með og styður við starfsemi heilsugæslunnar í fangelsum. Teymið er hreyfanlegt og nýtir sér tæknilausnir á sviði fjarheilbrigðisþjónustu svo fjarlægðir komi ekki í veg fyrir þjónustu. Áhersla er lögð á samstarf við aðra þjónustuveitendur og að tryggja viðeigandi eftirfylgni og stuðning félags- og heilbrigðisþjónustu eftir að afplánun lýkur. Geðheilsuteymi fyrir fanga sinnir, auk almennrar geðheilbrigðisþjónustu, sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu, svo sem meðferð við neyslu- og fíknivanda.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics