Hoppa yfir valmynd

Ný lög um um þróunarsamvinnu marka tímamót, segir utanríkisráðherra

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir að samþykkt nýrra laga á Alþingi um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands marki tímamót en með samþykktinni er innsiglað markmið stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að þróunarsamvinna sé nýr hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu. Segir ráðherra þróunarsamvinnu lykilmál alþjóðasamfélagsins og forsenda heimsöryggis, friðar og réttlætis. Með nýju lögunum hafi Alþingi stigið sögulegt skref til að uppfylla skyldur Íslands í samfélagi þjóðanna.

Lögin fela í sér gagngerar umbætur á stjórnkerfi málaflokksins. Lögð er áhersla á skilvirkt, gegnsætt og ábyrgt stjórnkerfi, skýra stefnumörkun, aukna aðkomu Alþingis sem samþykkir þróunarsamvinnuáætlun reglulega og sérstakt samstarfsráð með þátttöku fulltrúa félagasamtaka, háskólasamfélags og atvinnulífs til að tryggja að stefna Íslands á þessu sviði byggi ávallt á nýrri og ríkri þekkingu.

Á blaðamannafundi í dag sagði ráðherra að með hinum nýju lögum hefði skapast aukinn sveigjanleiki við framkvæmd þróunarsamvinnu sem færði stöðu og möguleika þróunarsamvinnu Íslands fram um mörg ár. Strangar, faglegar kröfur væru gerðar á alþjóðavettvangi til þróunarsamvinnu sem Ísland mun nú í enn ríkari mæli tileinka sér, m.a. með umsókn um aðild að þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnuninnar, OECD.

Tilgangur þróunarsamvinnu Íslands er að styðja viðleitni stjórnvalda í þróunarlöndum til að útrýma fátækt og hungri og stuðla að efnahagslegri og félagslegri þróun. Eignarhald viðtökuríkja er lykilatriði. Áherslumál Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu eru jafnrétti, sjálfbær þróun, menntun, heilbrigðismál, friðsamleg lausn deilumála og sjálfbær nýting auðlinda, með áherslu á orku og sjávarútveg.

Árið 2008 leggur Ísland tæpa 4 milljarða króna til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu sem er 0,3% af vergum þjóðartekjum. Til samanburðar var framlag Íslands fyrir tíu árum 0,07% af vergum þjóðartekjum. Árið 1970 settu Sameinuðu þjóðirnar það markmið að hvert þróað ríki legði 0,7% af vergri þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Í ræðu Íslands á allsherjarþing SÞ í september síðastliðnum var áréttaður sá ásetningur Íslands að stefna að því að vera meðal þeirra ríkja sem leggja mest fram.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics