Hoppa yfir valmynd

Átak til jarðhitanýtingar; stærsta þróunarsamvinnuverkefni sem Ísland hefur tekið þátt í

Eftir-undirritun

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra kynnti í dag stærsta þróunarsamvinnuverkefni sem Íslendingar hafa tekið þátt í, 65 milljarða króna sjóð sem Alþjóðabankinn hyggst koma upp til jarðhitanýtingar í Afríku. Sjóðurinn verður nýttur til að gera hagkvæmniathuganir og tilraunaboranir. Samstarf Íslands og Alþjóðabankans er mesta átak til jarðhitanýtingar í þróunarríkjum frá upphafi og Ísland verður aðalráðgjafi bankans á því sviði.

Við þetta tilefni var undirritað samkomulag Íslands við Norræna þróunarsjóðinn (NDF) um fjármögnun fyrsta hluta verkefnisins. Það felur í sér að íslensk stjórnvöld og þróunarsjóðurinn leggja 800 milljónir króna hvort til verkefnisins á næstu fimm árum.

Norræni þróunarsjóðurinn gengur til liðs við verkefnið með framlagi til verkþátta sem snúa að jarðhitaleit og grunnrannsóknum og mun Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafa yfirumsjón með því starfi. Markmiðið er að hraða jarðhitavæðingu í þrettán ríkjum Austur-Afríku sigdalsins;  Djíbútí, Eþíópíu, Úganda, Erítreu, Kenýa, Suður-Súdan, Tansaníu, Malaví, Mósambik, Búrúndí, Rúanda, Sambíu og Sómalíu. Á þessu svæði er mikill orkuskortur en sérfræðingar telja að í sigdalnum sé mögulegt að virkja allt að 14.000 MW úr jarðhita og veita þannig allt að 150 milljónum manna aðgang að hreinni orku.

Í samstarfinu felst að Íslendingar, með stuðningi Norræna þróunarsjóðsins aðstoði ríkin á svæðinu við jarðhitaleit, geri nauðsynlegar grunnrannsóknir og veiti liðsinni við gerð áætlana um jarðboranir til þess að meta stærð auðlindanna. Á hinn bóginn mun Alþjóðabankinn nýta eigin fjármögnunarleiðir  með stuðningi ríkja, alþjóðlegra loftslagssjóða og þróunarbanka til að gera ríkjunum kleift að gera nauðsynlegar hagkvæmniathuganir og hefja slíkar boranir. Tilraunaboranir eru sá þáttur sem er kostnaðarsamastur og einn helsti flöskuhálsinn við jarðhitanýtingu. Ef niðurstöður verða jákvæðar verður í framhaldinu unnt að ráðast í skipulagðar virkjanaframkvæmdir til raforkuframleiðslu og fjölnýtingar jarðhitans í atvinnuskyni með virkri þátttöku einkageirans.
.
Utanríkisráðherra undirritaði samkomulagið ásamt Pasi Hellman, nýjum framkvæmdastjóra Norræna þróunarsjóðsins og Engilbert Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.  Rohit Khanna, framkvæmdastjóri orkuráðgjafadeildar Alþjóðabankans (ESMAP), var fulltrúi bankans við undirritunina.

Ávarp ráðherra við undirritunina

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics