Hoppa yfir valmynd

Fimm milljónir til skuldbindinga stjórnvalda og Rauða krossins

IMG_0165-2Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var samþykkt að verja 5 milljónum kr. til að standa straum af kostnaði við framkvæmd heita sem stjórnvöld og Rauði krossinn hafa skuldbundið sig til að vinna að. Heitin voru undirrituð á 32. alþjóðaráðstefnu Rauða krossins og aðildarríkja Genfar-sáttmálans sem lauk í Genf í gær, 10. desember, á Alþjóðlegum degi mannréttinda, sem einnig er stofndagur Rauða krossins á Íslandi. Þau varða m.a. vernd til handa flóttafólki frá átakasvæðum, aukna aðstoð við fórnarlömb mansals og ráðstafanir gegn fordómum gagnvart útlendingum og til að auðvelda aðlögun þeirra að samfélaginu. Þá hafa stjórnvöld skuldbundið sig til að innleiða refsiákvæði Genfar-sáttmálans fyrir lok árs 2017 og til að innleiða svokallaðar Kampala-breytingar á stofnsamþykktum Alþjóðasakamáladómstólsins (ICC) um brot gegn friði.

Heitin voru undirbúin af landsnefnd um mannúðarrétt undir forystu utanríkisráðuneytis, en hún er starfrækt í samræmi við heit stjórnvalda og Rauða krossins frá 2007. Hlutverk nefndarinnar er að veita stjórnvöldum ráðgjöf um túlkun og framkvæmd alþjóðlegra mannúðarlaga og skapa vettvang fyrir umræðu um þau og útbreiðslu þeirra.

Alþjóðaráðstefna Rauða krossins er haldin á fjögurra ára fresti og er æðsti vettvangur Rauða kross hreyfingarinnar. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni "Í krafti mannúðar". Gréta Gunnarsdóttir, sendiherra mannréttindamála, fór fyrir sendinefnd Íslands og flutti ávarp íslenskra stjórnvalda á ráðstefnunni. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að leitað yrði leiða til að styrkja virðingu fyrir mannúðarlögum m.a. með aukinni samvinnu aðildarríkja Genfar-sáttmálans. Auk þess lýsti hún yfir stuðningi íslenskra stjórnvalda við baráttuna gegn kynferðisofbeldi og öðru kynbundnu ofbeldi en leggja þyrfti áherslu á að koma í veg fyrir slíkt ofbeldi í vopnuðum átökum og þegar annars konar neyðar- eða hættuástand ríkir.

Þá greindi hún frá framkvæmd sameiginlegra heita stjórnvalda og Rauða kross á síðustu ráðstefnu en þau tóku meðal annars til þess að greina íslenskt regluverk m.t.t. aðstoðar og aðfanga ef til stórfelldra hamfara kæmi, greina hindranir fyrir að útlendingar njóti réttinda sinna og stuðla að kynningu á alþjóðlegum mannúðarlögum á Íslandi.

Formaður Rauða krossins á Íslandi, Sveinn Kristinsson, ávarpaði einnig ráðstefnuna. Hann fjallaði um alvarleg áhrif loftslagsbreytinga á lífsskilyrði fólks um allan heim og mikilvægi almennrar samstöðu um fyrirbyggjandi aðgerðir og aðstoð við þá sem eiga sárt um að binda. Þá undirstrikaði hann mikilvægi virðingar fyrir mannúðarlögum auk mikilvægis baráttu gegn kynferðis- og kynbundnu ofbeldi.

Sameiginleg áheit stjórnvalda og RKÍ 2016-2019 (á ensku)

Ávarp Grétu Gunnarsdóttur

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics