Hoppa yfir valmynd

Fundur utanríkisráðherra og lögmanns Færeyja

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytin

Nr. 015

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra átti í dag hádegisverðarfund með Jóannesi Eidesgaard lögmanni Færeyja. Á fundi sínum ræddu þau samskipti Íslands og Færeyja á breiðum grunni, en sérstaklega var farið yfir stöðu mála varðandi framkvæmd Hoyvíkursamningsins. Fundurinn í dag var fyrsti formlegi fundur ráðherraráðs samningsins og ákváðu utanríkisráðherra og lögmaðurinn á fundi sínum að flýta skipan sérstakrar sameiginlegrar nefndar um framkvæmd hans, sem samningurinn kveður á um. Nefndin mun eiga sinn fyrsta formlega fund í Færeyjum síðar í mánuðinum. Hún mun hafa það hlutverk að fylgjast með framkvæmd samningsins og vinna að frekari framþróun hans.

Utanríkisráðherra og lögmaðurinn ræddu einnig hugsanlega aðild Færeyja að EFTA, en Ísland hefur stutt fyrirætlanir Færeyinga í þeim efnum. Ennfremur ræddu ráðherrarnir gagnkvæma skipan útsendra ræðismanna, og upplýsti utanríkisráðherra að stefnt verði að opnun nýrrar ræðisskriftofu Íslands í Þórhöfn þann 1. apríl n.k.

Á blaðamannafundi að loknum fundinum undirrituðu utanríkisráðherra og lögmaðurinn samning um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja, en áður hafði utanríkisráðherra Dana undirritað samninginn.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics