Hoppa yfir valmynd

Fréttatilkynning frá utanríkisráðuneytinu og Þróunarsamvinnustofnun Íslands

Undirritun samnings um þróunaraðstoð við Sri Lanka
Undirritun samnings um þróunaraðstoð við Sri Lanka

Tvíhliða samningur um þróunarsamvinnu Íslands við Sri Lanka var undirritaður í Colombo, höfuðborg landsins í dag. Samningurinn er gerður til fimm ára og nemur framlag Íslands til þróunarstarfs í landinu á þessu ári 75 milljónum króna. Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) mun sjá um framkvæmd verkefna í samstarfi við stjórnvöld á Sri Lanka. Er þetta í fyrsta sinn sem ÞSSÍ sinnir þróunarstarfi utan Afríku, þar sem stofnunin er í samstarfi við fjögur ríki.

Gunnar Snorri Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, undirritaði samninginn fyrir hönd Íslands og P. B. Jayasundera, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis, fyrir hönd stjórnar Sri Lanka. Viðstaddir undirritunina voru stjórnarmenn ÞSSÍ, Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður, og þeir Hjálmar Jónsson og Jón Skaptason.

 

Stjórn ÞSSÍ tók ákvörðun um að ganga til þróunarsamstarfs við Sri Lanka 2. desember 2004 og verja til þess 25 milljónum króna árið 2005. Í ljósi náttúruhamfaranna í Suðaustur Asíu og afleiðinga þeirra á annan dag jóla ákvað ríkisstjórn Íslands að hækka framlagið um 50 milljónir króna og hefur ÞSSÍ því alls 75 milljónir króna til ráðstöfunar vegna uppbyggingarstarfs á Sri Lanka á þessu ári.

 

Fátæk fiskimannasamfélög urðu verst úti í náttúruhamförunum, um 30 þúsund manns týndu lífi og á að giska 7 þúsund bátar eyðilögðust. Mannvirki við sjávarsíðuna voru hrifin á haf út og þúsundir misstu lífsviðurværi sitt. Að beiðni stjórnvalda var fyrirhugað að þróunarstarf ÞSSÍ yrði í fyrstu einkum á sviði sjávarútvegs, en vegna hamfaranna verða á því áherslubreytingar. Starfið mun taka mið af afleiðingum flóðanna og beinast að uppbyggingu í strandbyggðum, fræðslu og tæknivæðingu á sviði fiskveiða. Sri Lanka er í hópi miðlungs þróaðra ríkja og eru helstu tekjulindir, textíliðnaður, fiskveiðar, landbúnaður og skógarhögg.

 

Árni Helgason hefur verið ráðinn umdæmisstjóri ÞSSÍ á Sri Lanka. Hann mun skipuleggja starf stofnunarinnar og fylgja því eftir. Árni hefur um langt árabil starfað fyrir ÞSSÍ, í Úganda, Malaví og sem aðstoðarframkvæmdastjóri á aðalskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík.

 

 

                                                                                              

 

                                                                                                  Colombo, 23. júní, 2005.

 



Undirritun samnings um þróunaraðstoð við Sri Lanka
Undirritun samnings um þróunaraðstoð við Sri Lanka

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics