Hoppa yfir valmynd

Ráðherrafundur EFTA

Davíð Oddson, utanríkisráðherra sat í dag ráðherrafund EFTA ríkjanna í Vaduz í Liechtenstein. Ráðherrarnir ræddu samskipti EFTA ríkjanna, fríverslunarsamninga EFTA við þriðju ríki og samskipti EFTA ríkjanna við ESB. Á fundinum var ennfremur tekin ákvörðun um ráðningu Kåre Bryn, sendiherra Noregs í Hollandi, sem framkvæmdastjóra EFTA til þriggja ára frá miðju ári 2006 og um ráðningu Lilju Viðarsdóttur, sendifulltrúa á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sem aðstoðarframkvæmdastjóra EFTA með aðsetur í Brussel til þriggja ára frá hausti 2006.

Í umræðum ráðherranna um þriðjuríkjasamskipti kom skýrt fram að EFTA ríkin hafa sett sér það markmið að búa viðskiptalífi í löndum sínum bestu samkeppnisskilyrði í alþjóðaviðskiptum sem völ er á. Það felur í sér að EFTA ríkin leita nú í auknum mæli eftir fríverslunarsamningum við stór og mikilvæg viðskiptaríki án tillits til þess hvort ESB hafi þegar gert fríverslunarsamning við viðkomandi ríki. Þannig eru EFTA ríkin, fyrst vestrænna, ríkja langt komin með fríverslunarviðræður við Suður-Kóreu. Einnig eru EFTA ríkin fyrst vestrænna ríkja að hefja viðræður við Taíland á þessu ári, og þau vinna nú markvisst að því að fá Kína og Japan að samningaborðinu. Þegar við bætist fríverslunarsamningur EFTA ríkjanna við Singapúr sem gerður var árið 2002 er ljóst að EFTA ríkin eru að skapa sér sterka samkeppnisstöðu á Asíumarkaði. Ráðherrarnir voru sammála um að stefna að fríverslunarviðræðum við Rússland og Úkraínu svo fljótt sem verða má eftir að aðildarviðræðum þeirra að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) lýkur. Ráðherrarnir ræddu ennfremur stöðuna í samningaviðræðum EFTA við Tollabandalag Suður Afríku sem eru á lokastigi og samningaviðræðurnar við Egyptaland sem liggja í dvala sem stendur vegna óraunhæfra krafna Egypta um aukinn markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur. Jafnframt var fjallað um viðræðurnar við Kanada sem hafa staðið fastar í fimm ár en þar virðist nú loks hilla undir mögulegar lyktir samninga.

Ráðherrarnir ræddu EES samstarfið sem þeir voru sammála um að gengi vel. Vikið var sérstaklega að Lissabon-áætluninni sem Evrópusambandið reynir nú að hleypa nýju lífi í. Mörg þeirra markmiða sem ESB hefur sett sér samkvæmt áætluninni, en á í erfiðleikum með að ná, eru markmið sem EFTA ríkjunum hefur gengið vel að ná. Ráðherrarnir ræddu drög að nýrri þjónustutilskipun ESB og lögðu áherslu á mikilvægi innri markaðarins á sviði þjónustuviðskipta. Ráðherrarnir lögðu þó áherslu á að menn gæfu sér nægan tíma til að vinna úr þeim viðkvæmu álitamálum sem hafa komið upp varðandi gildissvið og innleiðingu væntanlegrar þjónustutilskipunar áður en hún verður samþykkt.

Ráðherrarnir áttu einnig fundi með þingmanna- og ráðgjafarnefndum EFTA þar sem fram fóru skoðanaskipti um EFTA samstarfið.

Yfirlýsing ráðherrafundarins er hjálögð.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics