Hoppa yfir valmynd

Rýnifundi um sjávarútveg lokið

Seinni rýnifundi Íslands og ESB um sjávarútvegsmál lauk í Brussel í dag. Á fundinum gerðu sérfræðingar Íslands grein fyrir íslenskri löggjöf á sviði sjávarútvegs. Fyrir íslenska hópnum fór Kolbeinn Árnason, formaður samningahópsins.

Íslenska sendinefndin lagði áherslu á sérstöðu íslensks sjávarútvegs sem er þjóðhagslega mun mikilvægari en í nokkru aðildarríki ESB. Greint var frá árangri Íslands við stjórnun fiskveiða sem er almennt betri en innan ESB. Þá var fjallað um sérstöðu Íslands hvað varðar staðbundna stofna  og þá staðreynd að efnahagslögsaga Íslands liggur ekki að efnahagslögsögu nokkurs aðildarríkis ESB.

Á rýnifundinum var sérstök áhersla lögð á þá fyrirvara sem fram koma í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis vegna aðildarumsóknar Íslands, m.a. forræði íslenskra stjórnvalda yfir sjávarauðlindinni með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi. Í álitinu segir meirihlutinn mikilvægt að leggja áherslu á meginreglur hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna sem tryggir ákveðin grundvallarréttindi. Enn fremur að Íslendingar fari með samningsforræði við stjórn veiða úr deilistofnum eins og hægt er þannig að réttindi Íslands til veiða úr þeim verði sem best tryggð. Sendinefndin lagði sérstaka áherslu á andstöðu Íslands við reglur ESB sem heimila brottkast á fiski.

Á fundinum var einnig lögð mikil áhersla á að haldið verði í möguleika á því að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi þannig að tryggt sé að afrakstur auðlindarinnar falli til á Íslandi, en lögð er sérstök áhersla á þetta atriði í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar.

Löggjöf ESB um sjávarútveg er umfangsmikil og er samningskafli 13 utan EES-samningsins. Samningahópur um sjávarútvegsmál hefur unnið þrjár greinargerðir sem fjalla um eftirfarandi:

Fiskveiðistjórnun og umhverfið

Samskipti við þriðju ríki og alþjóðastofnanir

Opinber fjárframlög og markaðsskipulag

Inngangur að 13. kafla

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics