Hoppa yfir valmynd

Stofnun sjálfstæðs viðskiptavettvangs á norðurslóðum samþykkt

Í gær lauk tveggja daga fundi embættismannanefndar Norðurskautsráðsins í Yellowknife í NorthWest Territories í Kanada en tveir fulltrúar Íslands tóku þátt í honum. Á fundinum var samþykkt að setja á fót samstarfsvettvang viðskiptalífs á norðurslóðum undir nafninu Arctic Economic Council en markmið þess er að efla samstarf stjórnvalda og viðskiptalífsins og styrkja ábyrga stefnu í málefnum norðurslóða. Í upphafi er gert ráð fyrir að hvert ríki og frumbyggjasamtök tilnefni allt að þrjá aðila í viðskiptaráðið en í framhaldi muni ráðið sjálft ákvarða fjölda þátttakenda, stjórn þess og stjórnarhætti og þannig verða sjálfstæður vettvangur viðskiptalífs á norðurslóðum. Viðskiptaráð norðurslóða er liður í formennskuáætlun Kanada í Norðurskautsráðinu en Ísland, Rússland og Finnland hafa leitt undirbúning þess ásamt fomennskuríkinu. 

Á fundinum var fjallað um verkefni og aðgerðir á vegum ráðsins, sex vinnuhópum þess og fjórum starfshópum. Meðal verkefna sem Ísland leiðir innan Norðurskautsráðsins er skýrsla um mannvistarþróun á norðurslóðum (AHDR II) og undirbúningur ráðstefnu um jafnréttismál á norðurslóðum. Auk þess tekur Ísland virkan þátt í starfshópum um forvarnir gegn olíumengun á hafsvæðum norðurslóða og um aukið vísindasamstarf á norðurslóðum.

Þá kynnti fulltrúi umhverfisráðuneytisins og formaður vinnuhóps Norðurskautsráðsins um verndun hafsvæða á norðurslóðum (PAME) nýja skýrslu um bættari öryggisvenjur vegna olíu- og gasvinnslu á hafsvæðum norðurslóða og nýtt verkefni er snýr að sjálfbærri ferðamennsku og skemmtiferðasiglingum á norðurslóðum. 

 

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics