Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherra á Allsherjarþingi SÞ

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur þessa vikuna tekið þátt í störfum Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York. Ráðherrann var viðstaddur opnun þingsins á miðvikudag þar sem Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, og forsetar Brasilíu og Bandaríkjanna fluttu fyrstu ræðurnar. Í gær var ráðherra viðstaddur þegar Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, ávarpaði Allsherjarþingið og lýsti því að Palestínumenn hefðu lagt fram umsókn sína um fulla aðild að Sameinuðu þjóðunum og hlýddi einnig á ræðu Netanyahus forsætisráðherra Ísraels. Ráðherra hefur lýst því yfir að Ísland muni styðja tillögu Palestínu þegar og ef hún komi til atkvæða í Allsherjarþinginu.

Í vikunni hefur ráðherra átt fjölda funda með ráðherrum annarra ríkja. Hann sat sérstakan fund utanríkisráðherra Norðurlandanna og árlegan fund Evrópuríkja með Bandaríkjunum og Kanada. Þá tók ráðherra þátt í minningarviðburði til heiðurs Dag Hammarskjöld fyrrum aðalritara Sameinuðu þjóðanna og fund græna hópsins svokallaða sem í eru nokkur smá ríki sem leggja áherslu á umhverfismál innan Sameinuðu þjóðanna.

Ráðherra átti formlega fundi með utanríkisráðherrum Pakistans og Kyrgistans en ríkin sækjast bæði eftir sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna nú í haust.

Einnig átti utanríkisráðherra formlegan fund með utanríkisráðherra Kýpur, Erato Kozakou-Marcoullis, þar sem rætt var um tvíhliða samskipti ríkjanna og umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Kýpur mun fara með formennsku í Evrópusambandinu á seinni hluta næsta árs þegar búast má við því að samningaviðræður standi sem hæst um mikilvægustu samningskaflana.

Kozakou-Marcoullis hét stuðningi Kýpur við umsókn Íslands en hún hefur margoft sótt landið heim, meðal annars sem sendiherra gagnvart Íslandi. Hún sagði Kýpur geta miðlað miklu af reynslu sinni til Íslendinga hvort tveggja í aðildarviðræðunum og sem lítið eyríki innan Evrópusambandsins.

Á mánudag flytur utanríkisráðherra ræðu Íslands á Allsherjarþinginu.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics