Hoppa yfir valmynd

Tölfræðinefnd S.þ. – Hallgrímur Snorrason

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 38
Hallgrímur Snorrason, hagstofustjóri, var í liðinni viku kjörinn til fjögurra ára setu í tölfræðinefnd Sameinuðu þjóðanna.
Tölfræðinefndinni, sem er ein undirnefnda efnahags- og félagsmálaráðs S.þ. (ECOSOC), er ætlað að stuðla að þróun hagskýrslugerðar í aðildarríkjum S.þ. og hafa forystu um samvinnu og alþjóðlega samræmingu á því sviði. Þá er nefndin ráðgefandi gagnvart stofnunum S.þ. á þessu sviði. Tuttugu og fjórir sérfræðingar sitja í nefndinni hverju sinni. Íslendingar hafa ekki átt sæti í nefndinni.
Hallgrímur Snorrason hefur langa reynslu af alþjóðastarfi í hagskýrslugerð. Hann hefur um árabil tekið virkan þátt í hagskýrslusamstarfi Efnahagsstofnunar S.þ. í Genf og samstarfi norrænu hagstofanna. Þá hefur hann tekið þátt í hagskýrslu-samstarfi EFTA-ríkja frá upphafi þess samstarfs, oftsinnis gegnt formennsku þess, og verið aðalfulltrúi Íslands í hagskýrslusamstarfi EES-ríkja frá upphafi. Hallgrímur hefur auk þessa verið í forystu Alþjóðasamtaka um opinbera hagskýrslugerð og var forseti þeirra samtaka árin 1993-1995.
Kjör í tölfræðinefndina fór fram á skipulagsfundi ECOSOC, sem haldinn var í New York 1.-2. maí sl., en þar var lokið undirbúningi ársfundar ráðsins, sem haldinn verður í Genf á komandi sumri. Ísland tók sæti í ECOSOC um áramót og íslensk stjórnvöld undirbúa um þessar mundir þátttöku í ársfundinum.
ECOSOC er helsti vettvangur S.þ. til alþjóðlegrar stefnumótunar og samræmingar aðgerða á efnahags- og félagsmálasviðinu. Ársfundum ECOSOC er skipt í fjóra hluta og er sá fyrsti ætlaður þátttöku ráðherra, háttsettra embættismanna og forstöðumanna alþjóðlegra stofnana. Á komandi ársfundi verður í þessum fyrsta hluta fjallað um hvernig stuðla megi að alþjóðlegu efnahagslegu umhverfi sem örvi þróun fjármagnsflutninga, fjárfestingar og viðskipti, einkum í þróunarríkjum. Gert er ráð fyrir að forstöðumenn Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Alþjóða-viðskiptamálastofnunarinnar og Þróunar- og viðskiptastofnunar S.þ. taki þátt í umræðum um ofangreind efni.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 6. maí 1997.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics