Hoppa yfir valmynd

Aðalsamningamaður Íslands í fyrirhuguðum aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins

Stefán Haukur Jóhannesson
Stefan_Haukur_Johannesson

Utanríkisráðherra hefur falið Stefáni Hauki Jóhannessyni sendiherra að vera aðalsamningamaður Íslands í fyrirhuguðum aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Stefán Haukur er einn reyndasti samninga-maður Íslands á alþjóðavettvangi. Hann hefur verið sendiherra Íslands gagnvart Evrópusambandinu í Brussel frá árinu 2005.

Á árunum 2001 til 2005 var Stefán Haukur Jóhannesson fastafulltrúi Íslands gagnvart Alþjóðaviðskipta-stofnuninni (WTO), EFTA og stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Genf. Hann var skipaður formaður vinnuhóps WTO um aðild Rússlands árið 2003 og gegnir því starfi enn. Hann var formaður samningahóps WTO um markaðsaðgang fyrir iðnaðarvörur í Doha-lotunni frá 2004 til 2006, og formaður í þriggja manna gerðardómi WTO árin 2002 og 2003 vegna deilu milli Evrópusambandsins, Kína og fleiri ríkja við Bandaríkin sem snérist um viðskipti með stál. Þá hefur Stefán Haukur leitt fríverslunarviðræður af hálfu Íslands og EFTA við ýmis ríki. Hann réðst til starfa í utanríkisráðuneytinu árið 1986 og tók þátt í rekstri EES-samningsins og annarri Evrópusamvinnu frá árinu 1993. Hann var skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins frá 1999 til 2001. Stefán Haukur er fæddur í Vestmannaeyjum og er lögfræðingur að mennt. Hann er giftur Halldóru Hermannsdóttur og eiga þau þrjú börn.

Gert er ráð fyrir að á næstu vikum eða mánuðum ljúki framkvæmdastjórn ESB gerð álits síns um aðildarumsókn Íslands og að á grundvelli þess taki aðildarríkin ákvörðun um að hefja formlegar aðildar-viðræður. Ætla má að þær hefjist á fyrri helmingi næsta árs og mun aðalsamningamaður í umboði utanríkisráðherra stýra þeim fyrir hönd Íslands. Skipan formanna einstakra samningahópa og annarra fulltrúa í samninganefnd Íslands verður kynnt síðar í vikunni.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics