Hoppa yfir valmynd

Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins - Utanríkisviðskipti

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________




Nr. 71



Undanfarin ár hefur alþjóðlegt viðskiptaumhverfi tekið gífurlegum breytingum. Frjálsræði hefur aukist og alþjóðleg samkeppni fer sífellt vaxandi. Útrás íslenskra fyrirtækja er því rökrétt og nauðsynleg og gerir þau færari að mæta alþjóðlegri samkeppni. Útrás íslenskra fyrirtækja er jafnframt grunnur að aukinni hagsæld.

Utanríkisviðskipti falla undir utanríkisráðuneytið. Til þess að mæta nýjum þörfum atvinnulífsins sem fylgja vaxandi alþjóðaviðskiptum og aukinni útrás íslenskra fyrirtækja hefur aukin áhersla verið lögð á þátt utanríkisviðskipta í starfsemi utanríkisþjónustunar. Utanríkisviðskiptastefna Íslands hefur þannig verið gagngert endurskoðuð.

Þáttur í breyttum áherslum í utanríkisviðskiptastefnunni er að efla sendiráð Íslands erlendis með stofnun viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins þann 1. september n.k. Einnig er ætlunin að virkja enn frekar kjörræðismenn Íslands í þessum tilgangi.

Starfsemi viðskiptaþjónustunnar fellur undir viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og skrifstofustjóri hennar er Kristinn F. Árnason. Forstöðumaður þessa sviðs er Benedikt Höskuldsson og ráðin hafa verið Unnur Orradóttir, sem er viðskiptafulltrúi í París og Magnús Bjarnason, sem viðskiptafulltrúi í New York.

Tilnefndir hafa verið viðskiptafulltrúar í öðrum sendiráðum til að annast störf viðskiptaþjónustunnar og á næstu vikum verða staðarráðnir starfsmenn við sendiráðin í Moskvu og Peking.

Í öllum sendiráðum verður veitt almenn markaðsaðstoð og fyrirtækjaþjónusta s.s. öflun grunnupplýsinga um tölfræði, tolla og viðskiptahópa. Í þeim sendiráðum þar sem sérhæft starfsfólk starfar, verður jafnframt boðið upp á fjölbreyttari þjónustu s.s. markaðsrannsóknir og leit og val að nýjum viðskiptamönnum.

Ætlunin er að þróa og auka starfsemi viðskiptaþjónustunnar á komandi misserum og áhersla verður lögð á þennan þátt starfseminnar við ráðningar starfsfólks í framtíðinni.

Annar þáttur í þessum breyttum áherslum í utanríkisviðskiptastefnu Íslands er að auka tengsl við ríki sem búið hafa við stöðuleika og mikinn hagvöxt undanfarin ár og þá ekki síst við þau ríki þar sem hefð er fyrir sjávarútvegi. Í þessum tilgangi var á síðasta ári skipulögð opinber heimsókn til Suður Kóreu þar sem með var í för stór viðskiptasendinefnd. Síðar í þessum mánuði fer utanríkisráðherra í opinbera heimsókn til Argentínu og Chile og með í þeirri för átján fulltrúar frá fyrirtækjum og verður það stærsta viðskiptasendinefnd sem farið hefur með íslenskum ráðherra erlendis.



Reykjavík, 11. ágúst 1997

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics