Hoppa yfir valmynd

Fundur Halldórs Ásgrímssonar og frkvstj. FAO

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 89

    Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra átti í morgun fund með Jacques Diouf, framkvæmdastjóra Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Til umræðu voru aðallega auðlindamál, þróunarmál og samskipti Íslands og FAO.

    Utanríkisráðherra lagði áherslu á mikilvægi lífrænna auðlinda sjávar í sambandi við fæðuöryggi í heiminum og ennfremur á mikilvægi FAO í aðstoð við þróunarlönd, einkanlega við að treysta undirstöður fæðuöflunar. Hann minntist á mikilvægi úthafsveiðisamningsins og viðleitni til að sporna við mengun hafsins frá landsstöðvum. Hann vísaði einnig til mikilvægis leiðtogafundarins í Róm í nóvember í fyrra, sem fjallaði um fæðuöryggi í heiminum.

    Utanríkisráðherra greindi jafnframt frá tvíhliða þróunaraðstoð Íslendinga í nokkrum Afríkuríkjum og þátttökunni í fjölþjóðlegri þróunaraðstoð, m.a. á vettvangi Alþjóðabankans og stofnana Sameinuðu þjóðanna. Í því sambandi minntist hann á samstarf íslenskra stjórnvalda við Háskóla Sameinuðu þjóðanna um Jarðhitaskóla og Sjávarútvegsskóla á Íslandi. Hann greindi einnig frá þátttöku Íslands í Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) og nefnd ráðsins um nýja og endurnýjanlega orkugjafa.

    Utanríkisráðherra vakti ennfremur athygli á reynslu og þekkingu Íslendinga á sviði uppgræðslu og varna gegn jarðvegseyðingu og ræddi möguleika á samstarfi á því sviði.

    Halldór Ásgrímsson lýsti áhuga sínum á aukinni samvinnu Íslendinga og Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Fulltrúar íslenskra stjórnvalda taka þátt í starfi fiskimálanefndar FAO, auk þess sem ýmsir aðilar, s. s. Útflutningsráð, Háskólinn á Akureyri og fyrirtæki í sjávarútvegi, tengjast FAO gagnabankanum GLOBEFISH.

            Utanríkisráðuneytið,
    Reykjavík, 22. október 1997.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics