Hoppa yfir valmynd

Nr. 76, 26. ágúst 1998:Utanríkisráðherrafundur Norðurlanda var haldinn í Västerås í Svíþjóð 25. - 26. ágúst 1998.

Utanríkisráðherrafundur Norðurlanda var haldinn í Västerås í Svíþjóð 25. - 26. ágúst 1998. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sat fundinn fyrir Íslands hönd.

Hefðbundin Norðurlandasamvinna, samstarf Norðurlanda á grannsvæðum, málefni Evrópusambandsins, Schengen-samstarfið og nýskipan öryggismála voru meginefni fundarins. Utanríkisráðherrarnir áréttuðu mikilvægi Norðurlandasamvinnunnar í evrópsku samhengi. Þeir voru sammála um að leita eftir nánara samstarfi við fulltrúa Norðurlandaráðs um utanríkismálefni, sem eru æ mikilvægari þáttur í norrænni samvinnu.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hafði framsögu um málefni Eystrasaltsráðsins, Barentsráðsins og Norðurskautsráðsins. Hann áréttaði mikilvægi þeirra fyrir aukið grannsvæðasamstarf á Norðurslóðum og lagði sérstaka áherslu á frekari eflingu Norðurskautsráðsins.

Í umræðu um Schengen-málefni lagði utanríkisráðherra áherslu á að skjót lausn fengist í fyrirhuguðum samningaviðræðum Evrópusambandsins við Ísland og Noreg. Á fundinum kom fram einhugur um að viðhalda norræna vegabréfasambandinu og að öll Norðurlöndin störfuðu náið saman að farsælli lausn Schengen-málsins.

Þá ræddu ráðherrarnir þróun öryggismála í Evrópu og stækkun Atlantshafsbandalagsins. Í framsögu sinni um Atlantshafsbandalagið lagði utanríkisráðherra áherslu á sjálfsákvörðunarrétt ríkja í öryggismálum og áframhaldandi þróun friðarsamstarfs Atlantshafsbandalagsins. Utanríkisráðherra vakti sérstaka athygli á stöðu Eystrasaltsríkjanna í þessu sambandi og mikilvægi þess, að NATO stæði þeim opið í náinni framtíð.

Utanríkisráðherrarnir lýstu yfir áhyggjum sínum vegna hins alvarlega ástands sem skapast hefur í Kongó og áréttuðu mikilvægi þess að komið yrði á friði og í veg fyrir að átök breiddust út.

Utanríkisráðherrar Norðurlanda áttu einnig fund með starfsbræðrum sínum frá Eystrasaltsríkjunum. Þeir ræddu einkum stækkun Evrópusambandsins, öryggismál í Evrópu ásamt svæðisbundinni samvinnu við Eystrasaltið. Voru þeir sammála um að margþætt samstarf ríkjanna, m.a. á sviði efnahagsmála, viðskipta- og umhverfismála, stuðlaði að auknu öryggi og stöðugleika í Evrópu. Norrænu ráðherrarnir ítrekuðu stuðning Norðurlanda við umsóknir Eistlands, Lettlands og Litháen að Evrópusambandinu.

Aleksandr Avdeyev, varautanríkisráðherra Rússlands, var gestur á sérstökum fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Á fundinum var aðallega fjallað um hið alvarlega ástand í Kosóvó, en einnig um málefni ÖSE, svæðisbundna samvinnu og umbótastarf innan Sameinuðu þjóðanna.

Yfirlýsing utnaríkisráðherrafundar Norðurlanda í Västerås 25. - 26. ágúst 1998 er hjálögð.


Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 26. ágúst 1998.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics