Hoppa yfir valmynd

Fundur norrænu menntamálaráðherranna

Menntamálaráðherrar Norðurlanda funduðu í Reykjavík þann 3. júní. Þema ráðherrafundarins var gæði í menntamálum og hvernig norrænu þjóðirnar geta unnið betur saman að úrbótum í þeim málum. Í fyrri hluta var rætt um gæðamál á háskólastigi og Jan Björklund menntamálaráðherra Svíþjóðar opnaði umræðuna. Í síðari hluta var athyglinni beint að neðri skólastigum og hófst hann á erindi um alþjóðlegar menntarannsóknir í norrænu samhengi (Northern Lights on TIMSS and PIRLS 2011) og sjónum beint m.a. að muninum á norrænum og asískum skólakerfum og viðhorfi til menntunar. Þá fluttu Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Christine Antorini menntamálaráðherra Danmerkur inngangserindi um stöðu mála á Íslandi og í Danmörku. Ráðherrarnir áttu líflegar umræður um helstu viðfangsefni menntakerfa á Norðurlöndum. Hugmyndir og ábendingar sem fram komu munu verða notaðar sem efniviður í starfsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar á sviði menntamála og vísinda næstu árin. „Þessi fundur tókst afar vel að mínu mati“ sagði Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, „og það er ljóst að við glímum við sömu úrlausnarefnin alls staðar á Norðurlöndum og getum aukið samvinnu okkar á milli um lausnir á þeim“.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics