Hoppa yfir valmynd

Samnorrænn þjóðhátíðardagur í Kampala

Í vikunni var haldinn samnorrænn þjóðhátíðardagur í Kampala í Úganda á vegum sendiráða Danmerkur, Íslands, Noregs og Svíþjóðar. Þetta var í níunda sinn sem Norðurlöndin fjögur bjóða til hátíðahalda af þessu tilefni. Árni Helgason forstöðumaður íslenska sendiráðsins í Kampala segir að hefðin sé orðin sterk fyrir þessum viðburði í höfuðborg Úganda.

Mogens Pedersen sendiherra Danmerkur í Úganda hélt hátíðarræðu fyrir hönd Norðurlandanna fjögurra. Umfjöllunarefni ræðunnar var helgað ungu fólki en þema dagsins var „Æskan - valdefling æskunnar og þáttur hennar í altækri þróun.“ Í ræðunni var vísað til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun þar sem segir  að „...æskan, bæði menn og konur, eru fulltrúar mikilvægra breytinga í samfélaginu. Í hverju landi er hún fulltrúi framtíðarinnar og gegnir lykilhlutverki í að auka samheldni í samfélaginu, stuðla að efnahagslegri velsæld, og tryggja pólítískan stöðugleika til framtíðar.Æskan getur aðeins sinnt þessu hlutverki þar sem stefna stjórnvalda er leiðandi og hvetur  til almennra þátttöku í lýðræðislegri framþróun."

Í ræðunni kom einnig fram að úgandska þjóðin er ein sú yngsta í heiminum, 78% þjóðarinnar 30 ára eða yngri. Því sé mikilvægt fyrir jákvæða framþróun í Úganda að tryggja unga fólkinu menntun, atvinnu og tækifæri til að taka þátt í þróun samfélagsins til framtíðar. „Öll Norðurlöndin eru tilbúin til að taka þátt í því starfi með heimamönnum,“ segir Árni Helgason.

Aðstoðarráðherra utanríkismála, Hr. Henry Oryem OKello flutti ávarp fyrir hönd stjórnvalda í Úganda og þakkaði langt og farsælt samstarf Úganda við öll Norðurlöndin.

Að sögn Árna var fjölmenni við hátíðarhöldin og gestafjöldinn um 4-500 manns. „Það hefur verið hefð fyrir því að Norðurlöndin bjóði upp á þjóðlegar veitingar, og af hálfu Íslands var í boði hangikjöt, reyktur lax, síld, sviðasulta, harðfiskur, kleinur, hverabrauð, flatkökur  og örlítill dreitill af íslensku brennivíni. Að hinum Norðurlöndunum ólöstuðum þótti íslenska framlagið bera af, en Friðrik Sigurðsson matreiðslumeistari í mötuneyti utanríkisráðuneytisins hafði veg og vanda af því að setja saman matseðilinn og koma matföngum til Úganda. Starfsfólkið í sendiráði Íslands í Kampala hafði veg og vanda af öllum undirbúningi og reiddi fram matföng til gesta við hátíðahöldin – og brást ekki bogalistin nú fremur en endranær,“ segir Árni.

Eins og undanfarin ár flutti blandaður kór frá Makarere háskólanum þjóðsöngva allra Norðurlandanna og gerði það með prýði.

  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 2
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 3
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 4

Tags

17. Samvinna um markmiðin
5. Jafnrétti kynjanna

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics