Hoppa yfir valmynd

Starf og hlutverk fjármálastöðugleikaráðs breytist með sameiningu SÍ og FME

Fjármálastöðugleikaráð hélt sinn fjórða fund á árinu 2019 þriðjudaginn 17. desember. Fundurinn var síðasti fundur fjármálastöðugleikaráðs í sinni núverandi mynd, en frá áramótum breytist reglulegt starf og hlutverk fjármálastöðugleikaráðs við sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Fjármálastöðugleikaráð mun eftir sem áður verða mikilvægur vettvangur samráðs og upplýsingaskipta milli fjármála- og efnahagsráðherra og Seðlabanka Íslands um málefni fjármálastöðugleika.

Sveiflutengd kerfisáhætta hefur lítið breyst frá síðasta fundi. Hins vegar hefur vera Íslands á gráum lista FATF (e. Financial Action Task Force) og neikvæðar fréttir af starfsemi innlends sjávarútvegsfyrirtækis erlendis aukið orðsporsáhættu Íslands. Áfram hefur hægst á innlendum efnahagsumsvifum og samdráttur í ferðaþjónustu er orðinn áþreifanlegri. Á sama tíma hefur húsnæðisverð haldist nokkuð stöðugt og hægt hefur á skuldavexti, einkum fyrirtækja. Alþjóðlegar hagvaxtarhorfur hafa einnig versnað frá síðasta fundi.

Viðnámsþróttur viðskiptabankanna er áfram talsverður. Eiginfjárhlutföll þeirra allra eru nokkuð yfir heildarkröfu um eigið fé. Lausafjárhlutföll bankanna eru einnig vel yfir reglubundnum lágmörkum og lausafjárstaða þeirra í íslenskum krónum hefur styrkst milli funda. Þjóðarbúið býr yfir mikilli getu til að takast á við áföll eftir uppgang síðustu ára. Ytri staða þjóðarbúsins er jákvæð og skuldir hins opinbera og einkageirans litlar í sögulegu samhengi. Peningastefnan og ríkisfjármálin búa við hagstjórnarsvigrúm til að bregðast við þeim aðstæðum sem upp kunna að koma og gjaldeyrisforði Seðlabankans er rúmur.

Vakin er athygli á því að samkvæmt tilkynningu Fjármálaeftirlitsins frá 15. maí 2018 mun eiginfjárauki vegna kerfisáhættu fyrir viðskiptabanka og sparisjóði sem teljast ekki kerfislega mikilvægir hækka úr 2% í 3% 1. janúar 2020 og verður aukinn þá sá sami fyrir alla viðskiptabanka og sparisjóði.

Samþykkt var að beina tilmælum til Fjármálaeftirlitsins um að halda sveiflujöfnunarauka óbreyttum að svo stöddu. Miðað við greiningu kerfisáhættunefndar undanfarið hefur mjög hægt á uppbyggingu sveiflutengdrar kerfisáhættu. Þar sem hvorki eru til staðar merki um að sveiflutengd kerfisáhætta hafi dvínað undanfarin misseri eða raungerst eru ekki rök fyrir lækkun sveiflujöfnunaraukans. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá því í febrúar 2019 um að hækka sveiflujöfnunaraukann úr 1,75% í 2% mun taka gildi í febrúar 2020.

 


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics