Hoppa yfir valmynd

Fundur utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins í Kaliningrad

Nr. 015

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat í dag utanríkisráðherrafund Eystrasaltsráðsins í Svetlogorsk í Kaliningrad í Rússlandi, en Rússar gegna nú formennsku í Eystrasaltsráðinu. Á fundinum var þess minnst að tíu ár eru liðin frá stofnun Eystrasaltsráðsins. Voru ráðherrarnir einhuga um að starf Eystrasaltsráðsins hefði skilað miklum árangri varðandi efnahagslega framþróun, friðsamleg samskipti og stöðugleika á Eystrasaltssvæðinu. Lögðu þeir jafnframt áherslu á áframhaldandi mikilvægi ráðsins, einnig eftir stækkun ESB, en telja má líklegt að fjögur aðildarríki Eystrasaltsráðsins til viðbótar verði þá aðilar að Evrópusambandinu.
Utanríkisráðherra fjallaði m.a. um þetta í ræðu sinni. Lagði hann áherslu á þann mikilvæga skerf sem Eystrasaltsráðið hefur lagt af mörkum s.l. tíu ár til að styrkja friðsamleg samskipti, efnahagslega framþróun og lýðræði á svæðinu. Ráðherra benti jafnframt á að eftir stækkun ESB myndu Rússland, Ísland og Noregur verða einu aðildarríki Eystrasaltsráðsins, sem standa munu utan Evrópusambandsins. Ljóst væri að störf ráðsins myndu draga dám af þessari þróun og myndi Eystrasaltsráðið í auknum mæli gegna veigamiklu hlutverki í samstarfi Rússlands og ESB. Yrðu málefni Kaliningrad, sem þá verður rússneskt eyland umkringt aðildarríkjum ESB, vafalaust ofarlega á baugi. Lýsti ráðherra í því sambandi yfir stuðningi við aðgerðaráætlun Eystrasaltsráðsins um verkefni á vettvangi Norðlægrar víddar Evrópusambandsins. Að lokum lýsti ráðherra vilja til þess að hvetja íslensk fyrirtæki til að skoða fjárfestingarmöguleika á svæðinu og fagnaði því að íslenskar lausnir á þróun neyðarlínusambands væru nú til alvarlegrar skoðunar.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti einnig tvíhliða fund með Igor Ivanov, utanríkisráðherra Rússlands og ræddu þeir m.a. málefni Mið-Austurlanda og önnur alþjóðamál sem efst eru á baugi, auk tvíhliða málefna.

Ræða ráðherra fylgir hjálagt, en yfirlýsingu ráðherrafundar Eystrasaltsráðsins verður að finna á heimasíðu þess á vefslóðinni www.baltinfo.org.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 6. mars 2002


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics