Hoppa yfir valmynd

Orðsending send til stjórnvalda í Ísrael

Nr. 026

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Utanríkisráðuneytið sendi í dag harðorða orðsendingu til stjórnvalda í Ísrael þar sem lýst er þungum áhyggjum yfir því sívaxandi og óhugnanlega ofbeldi sem Ísraelsher beitir gagnvart Palestínumönnum á hernumdu svæðunum. Áframhaldandi ofbeldi er algerlega óásættanlegt, þar með taldar sjálfsmorðsárásir Palestínumanna. Íslensk stjórnvöld skora á Ísrael að draga herlið sitt án tafar á brott frá sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna í samræmi við síðustu ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Í orðsendingunni leggja íslensk stjórnvöld áherslu á að lausn átakanna geti aldrei falist í hernaðaraðgerðum, heldur þurfi að leita pólitískra lausna sem feli í sér stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna sem geri þeim fært að búa við frið og lýðræði og jafnframt verði öryggi Ísraels tryggt. Báðir aðilar verði að láta af ofbeldisverkum strax og setjast að samningaborði án nokkurra skilyrða. Jafnframt þurfi að taka til alvarlegrar athugunar að senda alþjóðlegar eftirlitssveitir til svæðisins til að hindra frekari ofbeldisverk.
Vandinn fyrir botni Miðjarðarhafs verður aldrei leystur nema með beinum viðræðum milli ísraelskra stjórnvalda og fulltrúa heimastjórnar Palestínumanna. Grundvöllur varanlegra friðarsamninga verður að byggja á Óslóarsamningunum, á grundvelli Tenet-áætlunarinnar og Mitchell-skýrslunnar, sem báðir aðilar samþykktu á síðasta ári. Forsenda friðar á svæðinu er að stofnað verði sjálfstætt ríki Palestínu og réttur Ísraelsmanna til að lifa í friði og öryggi innan alþjóðlegra viðurkenndra landamæra verði viðurkenndur.
Orðsendingin fylgir hjálagt.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 10. apríl 2002



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics