Hoppa yfir valmynd

Tilkynnt um framlög Íslands í þróunarsjóði Sameinuðu þjóðanna á sviði hafréttar

Nr. 051

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

Málefni hafsins og hafréttarmál voru á dagskrá allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í gær en þá voru tíu ár liðin frá gildistöku hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Af því tilefni flutti Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, meðfylgjandi ræðu fyrir Íslands hönd. Tilkynnti hann þar um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að veita framlög í tiltekna þróunarsjóði á vegum samtakanna á sviði hafréttar, samtals að fjárhæð 200.000 bandaríkjadalir sem samsvarar um 14 milljónum króna.

Í ræðu sinni lagði fastafulltrúi áherslu á mikilvægi hafréttarsamningsins sem myndaði hinn lagalega ramma um alla umfjöllun um málefni hafsins. Hann sagði brýnt að ákvæðum samningsins væri hrint í framkvæmd og hvatti ríki til að standa vörð um samninginn. Hann lýsti ánægju yfir því að þær þrjár stofnanir, sem komið hefði verið á fót með samningnum, Alþjóðlegi hafréttardómurinn, Alþjóðahafsbotnsstofnunin og Landgrunnsnefndin, störfuðu allar með skilvirkum hætti.

Fastafulltrúi kvað Landgrunnsnefndina þegar hafa tekið við fyrstu greinargerðum frá strandríkjum um ákvörðun ytri marka landgrunns utan 200 sjómílna og fjölmörg ríki, þ.á m. Ísland, hefðu upplýst um þá fyrirætlun sína að leggja fram greinargerðir á næstu árum. Tryggja yrði að nefndin væri í stakk búin til að rækja það hlutverk sitt að yfirfara umræddar greinargerðir. Hann sagði enn fremur mikilvægt að auka skilning á ýmsum álitamálum varðandi túlkun viðeigandi ákvæða hafréttarsamningsins og auðvelda ríkjum þannig undirbúning greinargerða sinna til Landgrunnsnefndarinnar. Í þessu skyni hefði í fyrra verið haldin alþjóðleg landgrunnsráðstefna í Reykjavík. Nýlega hefði komið út rit með þeim fyrirlestrum sem fluttir hefðu verið á ráðstefnunni og myndi Hafréttarstofnun Íslands senda öllum þróunarríkjum eintak af ritinu.

Fastafulltrúi kvaðst í þessu sambandi vilja greina frá þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að veita framlag að fjárhæð 100.000 bandaríkjadalir (um 7 milljónir króna) í sjóð sem hefur það hlutverk að auðvelda þróunarríkjum, einkum hinum vanþróuðustu og smáum eyríkjum á meðal þeirra, undirbúning greinargerða til Landgrunnsnefndarinnar. Enn fremur hefði verið ákveðið að veita framlag að fjárhæð 50.000 bandaríkjadalir (um 3,5 milljónir króna) í sjóð til að veita meðlimum Landgrunnsnefndarinnar sem koma frá þróunarríkjum aðstoð til að taka þátt í fundum nefndarinnar.

Fastafulltrúi sagði úthafsveiðisamninginn hafa mikla þýðingu þar sem hann styrkti mjög rammann um verndun deilistofna og víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim. Virkni samningsins væri hins vegar undir því komin að sem flest ríki fullgiltu hann og framfylgdu ákvæðum hans og hvatti fastafulltrúi þau ríki, sem ekki hefðu enn fullgilt samninginn, til að gera það. Í þessu sambandi kvaðst hann vilja skýra frá þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að veita framlag að fjárhæð 50.000 bandaríkjadalir (um 3,5 milljónir króna) í nýstofnaðan sjóð sem hefur það hlutverk að auðvelda þróunarríkjum framkvæmd ákvæða úthafsveiðisamningsins.

Fastafulltrúi sagði íslensk stjórnvöld vera þeirrar skoðunar að allsherjarþinginu bæri í umfjöllun sinni um málefni hafsins að leggja áherslu á mál sem væru hnattræns eðlis, fremur en mál sem féllu undir fullveldisrétt einstakra ríkja eða fjalla bæri um á svæðisbundnum vettvangi. Mengun hafsins virti til dæmis engin landamæri og glíma yrði við hana með hnattrænum aðgerðum. Verndun og sjálfbær nýting lifandi auðlinda hafsins væri hins vegar dæmi um staðbundið eða svæðisbundið málefni. Ísland gæti ekki fallist á hnattræna stjórnun fiskveiða þar sem fiskveiðistjórnun félli undir fullveldisrétt einstakra ríkja eða væri á ábyrgð svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana.

Í ljósi þessa fagnaði fastafulltrúi því að í fyrirliggjandi drögum að ályktunum allsherjarþingsins um hafréttar- og fiskveiðimál væri viðurkennt að það væri hlutverk einstakra ríkja og svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana, eftir því sem við á, að stjórna veiðum sem haft geta skaðleg áhrif á viðkvæm vistkerfi hafsins. Hann sagði Ísland, eins og mörg önnur strandríki, árum saman hafa beitt svæðislokunum sem lið í fiskveiðistjórnun, m.a. í því skyni að vernda viðkvæm vistkerfi. Í síðustu viku hefði Ísland staðið að ákvörðun Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, NEAFC, um tímabundið bann við botnvörpuveiðum á nokkrum neðansjávarfjöllum og á afmörkuðu svæði á Reykjaneshrygg utan íslensku efnahagslögsögunnar. Mikilvægt væri að allar slíkar ákvarðanir væru teknar á vísindalegum grundvelli.

Fastafulltrúi gerði enn fremur grein fyrir störfum tengdum málefnum hafsins á vettvangi Norðurskautsráðsins og nefndi m.a. nýútkomna skýrslu á vegum ráðsins um loftslagsbreytingar. Loks fjallaði hann um mengun hafsins og í því sambandi um vinnu við að koma á fót reglulegu ferli á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að meta á hnattrænan hátt ástand umhverfis hafsins. Hann sagði það forsendu þess að unnt væri að takast á við mengun hafsins með skilvirkum hætti að fyrir lægju aðgengilegar upplýsingar um ástand þess.

Ræða fastafulltrúa (á ensku)

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics